145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þarna glímir hann við almennan misskilning á stefnu Pírata þar sem hugmyndafræðin er tiltölulega öðruvísi en tíðkast innan annarra stjórnmálaflokka. Við leggjum áherslu á aðferðafræði frekar en slíka hugmyndafræði. Við erum ekki að koma með hugmyndir um að svona eigi að gera þetta heldur aðferðafræði sem snýst um hvernig við náum hugmyndum saman um bestu lausn sem við getum síðan rætt hverja fyrir sig og ákveðið í sameiningu hvort lausnin er raunhæf eða ekki.

Í ákveðinni hönnunarhugsun sem við vinnum eftir er sviðið þrefalt. Það geta verið peningalegar lausnir, tæknilegar lausnir og lausnir fyrir fólk. Það er mjög algengt að fólk byrji á að spyrja: Hvað er hagkvæmt að gera? Það má vel vera að engin af þeim lausnum sem er hagkvæmt að gera sé í raun og veru góð lausn. Það getur verið fullt af tæknilegum lausnum en það þýðir ekki að það séu lausnir sem nokkur komi til með að nota. Við verðum náttúrlega að byrja á að spyrja: Hvernig virkar kerfið fyrir fólk? Það er sá útgangspunktur sem við byrjum á. Næsta þrep hjá Pírötum er oft tæknilegt. Varðandi hvert og eitt atriði hérna þá eru ekki einhlít svör. Svörin birtast smám saman í samvinnu við aðra flokka, almenning og hafa ekki farið í gegnum sérstakt ferli hjá okkur. Tollar til dæmis, samt: Burt með tolla. Júhú, frábært! (Forseti hringir.) Óháð hverju þrepi fyrir sig eða tryggingagjaldi eða hvað sem það er, ef orsökin kemur þaðan (Forseti hringir.) þá er það partur af lausninni. Ég kem því (Forseti hringir.) væntanlega ekki að núna en kannski í seinna andsvari.