145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn kom aðeins inn á útlendingamálin og málefni innflytjenda hér á landi. Eins og við vitum hefur þverpólitísk þingmannanefnd haft það verkefni að vinna frumvarp til nýrra útlendingalaga. Meginverkefnið, eins og við lítum á það í þingmannanefndinni, er að gera lögin þannig úr garði að við náum að opna aðeins landið okkar og fjölga þeim leiðum sem hægt er að nota til að koma til Íslands og starfa.

Ein af þeim hindrunum sem verið hefur í íslensku samfélagi gegn því að þetta verði gert aðeins liðugra er afstaða verkalýðsfélaganna og stéttarfélaganna. Miðað við þær upplýsingar sem ég aflaði mér, við vinnuna í þingmannanefndinni, eru áhrif þessara aðila á vinnumarkaði mun meiri á löggjöfina hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Þetta er eitt af því sem við þurfum að breyta. Það er auðvitað fjölmargt sem við þurfum að breyta en þetta viðhorf er eitt af því sem við þurfum að breyta, ef við viljum búa hér í opnu samfélagi.

Mig langaði bara að spyrja hv. þingmann, sem kemur kannski úr flokki sem hefur aðeins meiri tengsl við stéttarfélög og verkalýðsfélög en sá flokkur sem ég starfa fyrir, eða alla vega segir sagan það, hvort hún sé ekki sammála því að allir þurfi að leggja sitt af mörkum til að breyta löggjöfinni, breyta viðhorfum, þannig að við getum sannarlega sagt að við búum og störfum í opnu og lýðræðislegu samfélagi.