145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er hægt að fjargviðrast yfir því að einhvers staðar á leiðinni hafi orðið mistök varðandi launaútreikning sem snýr að kennurum. Þar stendur auðvitað upp úr að þetta kristallar þá hagræðingu sem er að verða í skólakerfinu og möguleika okkar til að hækka laun kennara myndarlega sem er út af fyrir sig gott mál. Þetta er kannski vel innan við 1% eða kannski 0,1–0,15% af heildarfjárlögunum þannig að ég tel ekki að við þurfum að taka langan tíma í slíka leiðréttingu. Hún hefur örugglega áður verið framkvæmd og á einhvern tímann síðar eftir að verða framkvæmd.

Ábyrgðin á þessari umræðu og því að við erum með kvöldfundi liggur hjá þingflokksformönnum, ekki forseta. Það er rangt að beina spjótum sínum að hæstv. forseta í þessu. Málið er ekki flóknara en það en að hv. þingflokksformenn setjist niður og ákveði það og við fáum óskir um það hvað stjórnarandstaðan vill halda umræðunni lengi áfram. Þá getur forseti í samráði við þá skipulagt þingstörfin í framhaldi af því. Vilja menn tala fram á mánudag, þriðjudag (Forseti hringir.) eða miðvikudag? Eina svarið sem hefur komið utan úr sal, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) er að fólk vilji tala meðan þörf er á því. Ja, þá verður að halda fundi meðan þörf er á því. (Forseti hringir.) Þetta er bara mjög einfalt. Hæstv. forseta er stillt upp við vegg í þessu máli.