145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst hafa nokkur orð um umræðuna sjálfa. Það hefur svolítið verið talað um hana og talað um hefðir í því efni þegar kemur að 2. umr. fjárlaga, að hér áður fyrr hafi umræðan verið stutt og jafnvel bara tekið sólarhring og menn hafi afgreitt fjárlögin við 2. umr. Þessar hefðir breyttust á síðasta kjörtímabili. Ég man ágætlega eftir því. Það var mjög merkilegt þegar sumir þingmenn voru allt í einu farnir að flytja hér (Gripið fram í.) að mig minnir 14 ræður í einu tilviki við 2. umr. fjárlaga. Ég held að hafi verið óhætt að kalla það málþóf á þeim tíma. Það lágu líka mörg hitamál undir í þinginu. Á þeim tíma skapaðist sú hefð að langar umræður voru við 2. umr. um fjárlög.

Ég verð að segja, burt séð frá því hvaða skoðun maður hefur á málþófi um fjárlög eins og varð á þessum tíma, sem ég tel ekki góðan brag á, að það virtist samt koma út úr því alveg ágæt ný hefð, þ.e. að þingmenn teldu það skyldu sína að setja sig á mælendaskrá við 2. umr. fjárlaga og segja frá sýn sinni á ríkisbúskapinn og á samfélagið. Ég hef hlustað á þær ræður af athygli sem hafa verið fluttar á undanförnum dögum og raunar sólarhringum því að þingfundir hafa verið langt fram á nótt. Mér finnst þær góðar. Mér finnst þær vera fluttar af einlægni og yfirsýn og mér finnst þær vera Alþingi til sóma. Mér finnst fólk hér vera að segja frá því hvernig það lítur á málin, hvernig það lítur á verkefnin sem fram undan eru, hvaða áherslur það hefur þegar kemur að samfélagsmálum og hvernig það vill útdeila fjármunum öðruvísi. Stjórnarliðar hafa líka komið hingað upp og varið sínar áherslur. Það finnst mér gott. Það hefur orðið ágæt samræða. Ég geri athugasemdir við að þingfundir þurfi endilega að vera langt fram á nótt, en ég held að við ættum að fagna þeim brag sem er á umræðunni og halda þessu áfram, gera meira svona.

Nú ætla ég að leggja mitt í púkkið. Hver er mín sýn? Hvað tel ég að þurfi að gera? Þegar ég les fjárlögin og fjárlögin eru þetta grundvallarplagg, þau lýsa hvað meiri hluti ætlar að gera, hvaða sýn hann hefur, þá er ég ánægður með að sjá að efnahagslífið er að taka við sér. Þetta er allt saman miklu betra. Það hefur vakið heimsathygli raunar að efnahagslegur uppgangur Íslendinga eftir mjög alvarlegt hrun fjármálakerfis er nánast kraftaverki líkastur. Það eru ákvarðanir margra flokka og margra stjórnmálamanna og embættismanna sem liggja þar að baki. Við horfum vonandi á næstu mánuðum fram á farsælt uppgjör gömlu búanna, sem hefur verið mjög stórt vandamál sem við höfum þurft að glíma við, fólk í öllum flokkum. Margar farsælar ákvarðanir allt frá hruni virðast vera að leiða til þess að farsæl niðurstaða náist. Þetta er allt saman fagnaðarefni. Þetta er eitthvað sem maður vonaði að mundi gerast eftir svona rosalega djúpa lægð. Í rauninni fannst mér frekar líklegt að það mundi gerast vegna þessa að raunhagkerfið var sterkt undir niðri. Það var líka ævintýralegur uppgangur í ferðaþjónustu sem við höfum upplifað undanfarið. Maður átti alltaf von á því en samt verður maður að fagna uppganginum í efnahagslífinu eftir erfið ár.

Hvaða væntingar hafði maður? Mér finnst mikilvægt að tala um þetta eins og ljós við endann á göngunum sem maður sá fyrir sér, eitthvert takmark sem maður leit svo á að við værum að reyna að ná sem þjóð eftir erfiða tíma. Mér fannst augljóst að við þyrftum að skera svona mikið niður til að fjármagna innviði okkar, í heilbrigðismálum, skólamálum, fjarskiptamálum, vegakerfi, eins og var augljóst að þurfti að gera eftir efnahagshrunið, það var yfir 200 milljarða halli á ríkissjóði. Við þurftum að fresta framkvæmdum. Ég upplifði að það væri tímabundið ástand. Auðvitað gæti það ekki verið svoleiðis. Það væri ekki ný hefð í ríkisbúskapnum að fresta nauðsynlegu viðhaldi og fjármögnun í uppbyggingu innviða.

Mér finnst það vera vonbrigði núna, þegar við erum að taka við okkur og mjög mikill hagvöxtur hefur verið mörg ár í röð, að við sjáum ekki þá nauðsynlegu opinberu fjárfestingu sem þarf að fara fram. Hún á sér ekki stað. Þetta skil ég ekki. Ég skil ekki að menn sjái ekki því að það er fullkomlega augljóst að við getum ekki látið reka á reiðanum. Við getum ekki hætt viðhaldi, hætt nauðsynlegri uppbyggingu á innviðum. Samtök iðnaðarins segja í umsögn sinni um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016 að að jafnaði þurfi opinber fjárfesting að vera um 4% af landsframleiðslu til að viðhalda eðlilegum vexti innviða, með tilliti til fólksfjölgunar og þar fram eftir götunum. Frá 2009 hefur hlutfallið verið á bilinu 2,53%. Raunar segir í fylgiriti fjárlagafrumvarpsins að hin opinbera fjárfesting haldi ekki í við afskriftir. Þetta þýðir að eignir ríkisins, innviðirnir, eru að rýrna. Þetta gengur ekki. Þetta er ekki sjálfbært. Þetta er ekki hægt. Af þessari braut verður að snúa.

Ég spyr mig: Af hverju erum við ekki að snúa af þessari braut núna í fjárlögum eftir um það bil 4–5 ára hagvaxtarskeið? Af hverju ekki, með allan þennan uppgang í mjög stórum atvinnugreinum á Íslandi, þegar bankastjórar tala um að það sé blússandi góðæri? Ætlum við að fresta þessu? Ætlum við að fara í gegnum góðæristíma, uppgangstíma, án þess að byggja upp innviðina? Hvað gerist þá í næstu kreppu?

Þetta er skortur á sýn, sem mér finnst ríkisstjórnarflokkarnir vera ótrúlega sekir um. Það kemur mér á óvart. Ég hélt að þessir gömlu rótgrónu valdaflokkar hefðu skilning á því að það þarf að fjárfesta í innviðum samfélagsins. Ég skil ekki þetta hik, t.d. í sambandi við fjárfestingu í heilbrigðismálum, að byggja upp nýjan spítala sem hefur verið augljós þörf fyrir um langt árabil. Það er ekki komin samgönguáætlun. Hvað á það að þýða? Það er augljóst að það þarf að byggja upp vegakerfið, það þarf að byggja upp fjarskiptakerfið og byggja upp raforkuflutningakerfið.

Þetta er undarlegt. Þetta eru vonbrigði þegar kemur að ríkisfjármálunum. Það eru raunar vonbrigði að horfa á 10 milljarða afgang sem má með sterkum rökum halda fram að sé einkum til kominn vegna annars vegar óreglulegra liða, sem eru arðgreiðslur úr bankakerfinu, og hins vegar því að menn eru að fresta framkvæmdum. Þetta er ekki sjálfbær ríkisrekstur. Þetta er ekki gott. Af þessari braut verðum við að víkja.

Nú vill svo til, og þetta tengist vonbrigðum mínum, að við þingmenn Bjartrar framtíðar sátum hér tveir á síðasta kjörtímabili í aðdraganda kosninga og Björt framtíð átti frumkvæðið að því, ásamt mjög mörgum öðrum sem hugsuðu eins, að samþykkt var við afgreiðslu fjárlaga undir lok síðasta kjörtímabil fjárfestingaráætlun. Það var vegna þess að okkur fannst augljóst að það sem yrði að gerast eftir langvarandi niðurskurð í fjárfestingum í innviðum væri uppbygging, það þyrfti að byggja upp. Mér fannst líka gott að eftir hrun fóru mjög margir á stúfana og fóru að greina hvar þörfin væri mest. Það var blásið til verkefnis sem kallast sóknaráætlanir landshluta sem var samráðsverkefni. Það var einfaldlega farið um landið og haft samráð við sveitarstjórnarmenn, íbúa, hagsmunasamtök og skilgreint hvað þyrfti að gera í hverjum landshluta til að blása til sóknar. Mér fannst þetta verklag til fyrirmyndar. Það lágu fyrir skýrslur um hverju lítils háttar aukning í framlögum í samkeppnissjóði mundi skila, sem hefur blessunarlega verið farið í síðan, í Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð en líka til samkeppnissjóða á sviði skapandi greina og græns iðnaðar. Þetta var greint. Þetta var góð arðbær fjárfesting. Það lá fyrir að það þurfti auðvitað að fara í uppbyggingu á vegakerfi og fjármunir í fjárfestingaráætluninni voru settir í það og í nauðsynlegar húsbyggingar.

Ég skil ekki. Þetta var samþykkt hér. Þetta var fjármagnað. Hugmyndafræðin var sú að það væri réttlætanlegt að taka einmitt óreglulega liði, eins og arðinn úr bankakerfinu, til þess að fjármagna arðbær og nauðsynleg verkefni til að hverfa af þessari ósjálfbæru braut. Það var líka hugmyndafræðin að það væri réttlætanlegt að taka arð af sjálfbærri auðlindanýtingu í sjávarútvegi og skila honum aftur út á land að hluta til, allt saman að hluta til. Allt var þetta í samræmi við áætlanir um að greiða niður opinberar skuldir líka. Það hefur komið í ljós að þessir peningar hafa skilað sér en þeir hafa bara runnið algerlega án umræðu í allt aðra hluti.

Ég heyri marga stjórnarþingmenn, þegar þeir koma hingað upp, lýsa sinni sýn og þeir vilja auka fjárfestingar. Þeir vilja ráðast í þessi verkefni. Þeir sjá alveg hversu ósjálfbært þetta er. Af hverju var það fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar að blása þessa fjárfestingaráætlun af, fullfjármagnaða, þegar hún hafði verið samþykkt í þinginu? Það lá fyrir að Alþingi hafði samþykkt þessa stefnu. Síðan þá hefur ríkisstjórnin verið að plokka í sömu liðina og taka þá inn aftur, t.d. í fjáraukalög eins og uppbyggingu ferðamannastaða. Það var hluti af fjárfestingaráætluninni að fara í markvissa uppbyggingu á innviðum ferðaþjónustunnar. Ríkisstjórnin blés það af en sá síðan að þessi fjárfestingarþörf var augljóslega til staðar, enda var áætlunin byggð á mjög ítarlegri greiningu. Ríkisstjórnin hefur verið að skjóta þessum liðum inn í fjáraukalög allt kjörtímabilið.

Við hefðum betur staðið við fjárfestingaráætlunina. Hvernig væri landslagið núna? Núna væri fjárfestingaráætluninni lokið. Hún átti að vera frá 2013–2015, í þrjú ár að báðum árum meðtöldum. Það væri búið að ráðast í uppbyggingarverkefni í öllum landshlutum. Það væri búið að ráðast í mjög mikilvægar samgöngubætur um allar koppagrundir, m.a. Dýrafjarðargöng á Vestfjörðum. Það væri búið að fjármagna mjög myndarlega uppbyggingu í innviðum í ferðaþjónustu á mjög góðum tímapunkti nú þegar spáð er gríðarlegri fjölgun ferðamanna á næsta ári. Væri ekki gott að vera búin að ráðast í þá uppbyggingu?

Hvar var fyrirhyggjan hjá þessari ríkisstjórn? Hver var pælingin? Auðvitað mátti breyta einhverjum áherslum í fjárfestingaráætluninni, að sjálfsögðu, þegar ný ríkisstjórn tók við, en að blása hana alla af og bæta síðan eiginlega engu við í opinbera fjárfestingu öðru en því að menn ætla að setja 40 milljónir í að gera við Bessastaði. Svo ætla menn mögulega að byggja viðbyggingu við Alþingishúsið en hún verður að vera eftir teikningu frá Guðjóni Samúelssyni frá 1916. Þetta er bara fyndið. Þetta er háðuglegt. Ég skil ekki slíkt fyrirhyggjuleysi. Ég fatta ekki þennan skort á sýn. Ég hefði haldið að þetta væri augljóst, blasti við.

Annað sem eru mér vonbrigði eftir hrun, á uppgangstímum í efnahagslífi sem eru út af fyrir sig gleðiefni eins og ég hef rakið, er stjórnunarstíll núverandi ríkisstjórnar. Það vakti mér von eftir hrun að blásið var til alls konar samráðsverkefna sem áttu að leiða til þess að við mundum sem samfélag leiða mjög erfið deilumál til lykta. Það var farið í það að endurskoða stjórnarskrána. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því. Kannski var of hratt farið og hefði mátt gefa því lengri tíma. Samþykkt var í þinginu, m.a. að mínu frumkvæði og hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar og Katrínar Jakobsdóttur, tillaga um að gefa því meiri tíma. Við höfum tíma. Engu að síður hökti verulega í þessu samráðsverkefni og það rann nánast út í sandinn. Ég minntist áðan á sóknaráætlanir landshluta, hið merkilega samráðsverkefni við sveitarstjórnarfólk og landshlutasamtök. Það var blásið af. Það var skorið niður í 15 milljónir á upphafsdögum ríkisstjórnarinnar en síðan hefur verið að mjatla aðeins til baka í það vegna þess að ríkisstjórnin áttaði sig á að verkefnið var gott. Engu að síður var það samráðsverkefni sem var blásið af. Það var samráðsvettvangur um aukna hagsæld þar sem fulltrúar pólitíkurinnar og atvinnulífsins komu saman. Hann er núna í mýflugumynd. Við sjáum hvernig farið er með alls konar lögbundin samráðsferli eins og rammaáætlun og samráð í flugvallarmálinu og þar fram eftir götunum. Umsóknin um aðild að ESB, sama hvaða skoðun menn hafa á því, var ferli sem átti að leiða til þess að við mundum einfaldlega sem samfélag taka ákvörðun í því máli og komast að niðurstöðu. Mér fannst ákveðin lýðræðisþróun eiga sér stað af augljósum ástæðum eftir hrun. Það var ákall um beinna lýðræði, meira samráð og heilbrigðara samtal. Þess vegna var Björt framtíð meðal annars stofnuð, til að berjast fyrir því.

Hvað höfum við séð? Við höfum séð öll samráðsverkefni blásin af. Þetta er stjórnunarstíll samkvæmt teikningum frá 1916, finnst mér. Þetta er gömul tegund af pólitík. Hingað koma flokkar og segja einfaldlega: Við í meiri hlutanum ráðum, við ráðum. Það er slæmt. Það veldur að mínu hyggjuviti þeirri kergju og reiði sem við upplifum þrátt fyrir uppgangstíma í efnahagslífi. Mér finnst að þingmenn stjórnarmeirihlutans verði að skilja þetta. Þeir eru stundum fullir undrunar í ræðum sínum þegar þeir segja: Sjáið þið ekki hvað efnahagslífið er gott, sjáið þið ekki að það blasir við að við höfum það betra? Það er að hluta til rétt en hins vegar má ekki vanmeta þá kergju sem er í fólki. Ég finn hana í sjálfum mér. Hún tengist áformum um annars vegar uppbyggingu, eins og ég hef rakið, eftir erfiða tíma og hins vegar meiri þátttöku fólks í ákvörðunum um stór málefni. Það má ekki vanmeta þessa kergju. Það verður að tala kergjuna úr fólki og grípa til aðgerða. Annars mun hún bitna á okkur efnahagslega.

Ég vil nefna dæmi um eina birtingarmynd kergjunnar og skort á samráði og skort á samtali. Ég skal nefna tvö dæmi sem kosta okkur beinlínis mjög mikinn pening. Hvernig stóð á því að fyrir um það bil ári var allt logandi í vinnudeilum á vinnumarkaði? Er ekki hægt að segja að nánast hvert einasta verkalýðsfélag, félag starfsmanna á vinnumarkaði, hafi farið í verkfall? Er það ekki mjög alvarleg efnahagsleg birtingarmynd á skorti á markvissu samráði, samtali og trausti að nánast öll félög á vinnumarkaði skuli á uppgangstímum, eftir langvarandi hagvöxt, þurfa að nýta sinn ýtrasta rétt til að ná fram kjarabótum með óskynsamlegri niðurstöðu, að mínu viti, ósjálfbærum kjarabótum sem þjóðfélagið á erfitt með að fjármagna? Samráðsleysi, skortur á trausti og sú skætingsvaldapólitík sem núverandi meirihlutaflokkar stunda kostar peninga. Hitt dæmið sem ég vil nefna eru störf þingsins. Hvernig samráðsleysi á Alþingi leiðir til annarrar tegundar af sóun, einfaldlega sóun á tíma og hæfileikum fólks því að fólk talar ekki saman, sem gerist ítrekað. Þetta finnst mér þurfa að laga.

Eitt sem ég hef upplifað undanfarið, ein stór birtingarmynd af slíkri skætingsdylgjupólitík sem kostar peninga og leiðir til vondra ákvarðana — við sáum mikið af þessu fyrir hrun, ótal vondar ákvarðanir hafa verið teknar á grunni gamaldags pólitíkur sem er stunduð á grunni teikninga frá 1916 — er orðræðan um heilbrigðismál, hvernig spjótin fljúga milli Alþingis og spítalans og milli lækna í samfélaginu og hæstv. forsætisráðherra samkvæmt nýlegu dæmi. Það virðist vera algerlega ómögulegt að ræða þessi mál af yfirvegun. Ég veit að það eru margar hliðar á þessu. Ég veit að forustumenn í fjárlaganefnd, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem hér situr, hafa dregið fram ásamt hæstv. forsætisráðherra það sem verður ekki hrakið og er gott, að framlög til spítalans hafa aukist á undanförnum tveimur, þremur árum. Þau hafa gert það. Það er gott. Það má líka segja að þau hafi aldrei verið meiri að krónutölu. En það segir ekki alla söguna. Það verður auðvitað að horfa á fast verðlag. Til þess að fá fyllri mynd af stöðu spítalans verður að vera hægt að draga fram fleiri hliðar á talnaleiknum, fleiri hliðar á stöðunni. Það er til dæmis áleitin spurning, sem er hægt að takast á við hér, að þó svo að framlög hafi aukist á síðustu árum verðum við að geta spurt: Er það nóg? Þegar við skoðum aðrar tölulegar vísbendingar um stöðu spítalans og stöðu heilbrigðismála er svarið auðvitað: Nei, þetta er ekki nóg. Ef við segjum að sú aukning sem hefur verið farið í á undanförnum árum sé nóg, m.a. út af launaþróun, er það dæmi um verulegan skort á metnaðarfullri sýn til heilbrigðismála. Ég held að mönnum sé að verða það ljóst, a.m.k. greini ég eina vísbendingu um það. Ríkisstjórnin lagði fram fjárlagafrumvarpið undir þeirri fyrirsögn að það væri velferðarfrumvarp, velferðarfjárlög, og vísaði þá til þess að gefa ætti í til spítalans og til heilbrigðismála. Það talar enginn lengur um velferðarfjárlög. Það er öllum ljóst að aukningin til heilbrigðismála er ekki nóg, aukningin til spítalans er ekki nóg.

Skoðum þá tölurnar. Einn góður mælikvarði er hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins. Við erum ekki bara að horfa á þetta kjörtímabil og síðasta kjörtímabil heldur hver þróunin hefur verið. Mér finnst mikilvægt að tala mikið um heilbrigðismálin. Mér finnst þau vera mikilvægasti málaflokkur fjárlaganna. Kannanir sýna ítrekað að þjóðin er á sama máli. Við viljum hafa gott heilbrigðiskerfi. Hver hefur þróunin verið? Framlög til spítalans, sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins, hafa dregist saman úr því að vera 9,4% árið 2003 í 6,8% árið 2014. Þau hafa sem sagt dregist saman um 22% þegar tekið hefur verið tillit til tilfærslu S-merktra lyfja til Sjúkratrygginga Íslands. Það verður að taka tillit til þess því að það hefur ýmislegt breyst á þessu tímabili. Þrátt fyrir aukið umfang verkefna, þau aukast um hátt í 2% á ári hverju vegna breyttrar aldurssamsetningar, fjölgunar íbúa í Reykjavík eða í nærumhverfi spítalans, vegna breytinga á þróun sjúkdóma, langvarandi sjúkdóma — þetta er allt saman að gerast og þrátt fyrir aukna þörf hafa framlög til spítalans dregist saman um 22% frá 2003 þegar horft er til hlutfalls á heildarútgjöldum ríkisins.

Menn tala um að framlögin hafi aldrei verið meiri til spítalans. Hæstv. forsætisráðherra segir það æði oft. Ég skil ekki hvað hann meinar. Ég fæ ekki séð hvernig hægt er að komast að þessari niðurstöðu nema með því að horfa bara á krónutöluna og gera ekki ráð fyrir föstu verðlagi. Ef við skoðum þetta á föstu verðlagi — menn geta auðvitað deilt um hvað sé fast verðlag í tilviki spítalans, hvort menn vilji horfa á verðlagsþróun eða launaþróun en samkvæmt þeim tölum sem ég hef og þeirri niðurstöðu þegar ég kemst að þegar ég skoða einfaldlega tölur fjárlaga þá voru fjárframlög til rekstrar spítalans á árinu 2015 um 7% minni en árið 2008 og árið 2008 var toppurinn. Mönnum eru toppar hugleiknir í dag. Þetta er staðreyndin. Þetta rímar alveg við það að spítalinn þurfi yfir 3 milljarða núna til að viðhalda óbreyttum rekstri og þjónustu. Það er það sem vantar upp á.

Viðbrögð meiri hluta fjárlaganefndar eru að efna til úttektar á rekstri spítalans. Gott og vel, fínt, gerum það. Er einhver haldinn þeirri grunsemd að forsvarsmenn spítalans séu ekki að segja satt og rétt frá, að þeir séu að reyna að herja úr ríkissjóði peninga til að hafa það betra og að þau fjárframlög sem þarna þurfa að koma til og minni hluti fjárlaganefndar gerði tillögu um að yrðu sett í fjárlögin séu ekki byggð á neinni þörf, séu ekki byggð á neinni skoðun? Mér finnst alvarlegt ef svo er. Þau gögn sem mér hafa verið kynnt sýna óyggjandi að þetta er mjög vel rökstutt. Skoðum til dæmis hvernig þróun íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur verið. Þeim hefur fjölgað um 6,7% frá 2008. Þar af hefur íbúum 70 ára og eldri fjölgað um 13,2% og 80 ára og eldri um 19,4%. Landsmönnum í heild hefur fjölgað um 4,3%. Er eitthvað skrýtið á grundvelli þessara upplýsinga að Landspítalinn skuli segja að við þurfum meira fé? Við þurfum að sinna þessu.

Skoðum þá samanburðinn við aðrar Norðurlandaþjóðir. Þá er mjög nærtækt að skoða hlutfall af vergri landsframleiðslu. Framlög til heilbrigðismála í heild sinni eru 8,7% á Íslandi, í Svíþjóð 11%. Við erum lægst þegar kemur að samanburði á Norðurlöndum. Skoðum fjárfestingu í innviðum heilbrigðisþjónustu, sem er mál sem hefur verið mikið til umræðu hér. Það er í rauninni ótrúlegt hvað hefur tekið langan tíma að komast að niðurstöðu um að hefja byggingu nýs spítala sem augljós þörf hefur verið fyrir um langt árabil. Skoðum hvað tölurnar segja okkur um samanburð við önnur OECD-ríki á fjárfestingum í innviðum í heilbrigðisþjónustu. Talað er um að æskilegt sé að þetta hlutfall sé í kringum 0,5% vegna íbúaþróunar, þróunar aldurssamsetningar og þróunar ýmissa langvarandi sjúkdóma. Það þarf að fjárfesta í innviðum upp á 0,5% af vergri landsframleiðslu árlega. Hvar erum við? Í 0,1%. Við erum í næstlægsta sæti samkvæmt lista OECD. Mexíkó er í neðsta sæti. Ég verð að segja að ef einhverjum finnst þetta ásættanlegt, góður staður fyrir heilbrigðiskerfið, sérstaklega núna á uppgangstímum, þá finnst mér það lýsa metnaðarlausri sýn á heilbrigðismál, jafnvel skorti á sýn. Mér finnst þurfa að ræða það. Mér finnst þurfa að setja þessar tölulegu staðreyndir í púkkið til að fá einhverja heilbrigða umræðu um heilbrigðismál.

Ég sé ýmislegt í heilbrigðismálum sem mér finnst spennandi, sem ríkisstjórnin er að gera, t.d. átak í geðheilbrigðismálum og að efla heilsugæslu. Við getum rökrætt um það hvort heilsugæslan eigi að vera einkarekin eða ekki. Ég sé alveg góð dæmi um einkareknar heilsugæslustöðvar á Íslandi. Við í Bjartri framtíð höfum verið talsmenn þess að við séum opin fyrir fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðisþjónustu. Ég held að það sé algert lykilatriði að byggja upp heilsugæsluna á Íslandi. Það er liður í því að létta álagi af Landspítalanum. Ég held að það þurfi líka að byggja upp úrræði fyrir eldri borgara, einhver hjúkrunarrými og heimaþjónustu, til þess að létta álagi af spítalanum. Mér finnst algert lykilatriði þegar kemur að heilbrigðismálum að það verði ekki sjálftaka, einhvers konar gróðapungavæðing í heilbrigðisþjónustu þannig að þriðju aðilar fari að græða á tá og fingri á sjúkdómum annarra. Þá er lykilatriði að við erum með ríkisrekið sjúkratryggingakerfi. Mér finnst það vera algjört lykilatriði. Ég skynja að það er sátt um það. Við erum ekkert að fara að búa til eitthvert samkeppnisumhverfi í sjúkratryggingum. Allir njóta sömu réttinda þegar kemur að því.

Ég segi einfaldlega: Ef menn ætla að fara í útboð á rekstri heilsugæslu, sem ég tel margt mæla með og mér finnst rétt að gera, ég held að það geti verið góð og þörf viðbót við heilsugæsluna eins og hún er núna, þá verða menn að gæta að því að það verði ekki til gróðafyrirtæki og það myndist ekki einhver sjálftaka í sameiginlega sjóði í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Þarna verður að vera ríkt eftirlit með opinberum fjármunum. Þetta eru viðvörunarorðin í því efni.

Ég held að það geti verið sterk rök fyrir að heimilislæknar og læknar og aðrar heilbrigðisstéttir fái að spreyta sig á því í auknum mæli, á grunni sinnar menntunar og sinna hæfileika, að reka heilsugæslu. Mér finnst líka mikilvægt að geta þess sem eru góð skref. En mér finnst líka afskaplega mikilvægt að við komum umræðunni um heilbrigðismál út úr skeytasendingum og reynum að ræða það eins og manneskjur. Við hljótum öll að hafa áhyggjur af stöðu heilbrigðismála. Það þarf að lækna sjúkdóma. Við viljum að Íslendingar njóti öryggis þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Við verðum auðvitað að setja allar tölulegar staðreyndir á blaðið.

Að síðustu vil ég segja þetta: Ég hef rætt um skort á fjárfestingum og hef heyrt tölur um að inn í kerfið vanti allt frá 100 milljörðum og upp undir 500 milljarða í opinberar fjárfestingar. Ég treysti mér ekki sjálfur til að slá á á hvaða bili það liggur. Við þurfum að hafa eitthvert plan og greina þörfina. Það er átakanlegt að lesa í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu að engin tilraun hefur verið gerð til að greina þessa þörf. Menn treysta sér ekki einu sinni til að nefna þær framkvæmdir sem þó á að ráðast í fyrir það litla fé sem er sett í opinberar fjárfestingar. Menn nefna þær ekki einu sinni. Samt á þetta að heita áætlun til þriggja, fjögurra, fimm ára. Af hverju er ekki farið í það almennt að greina þörfina í íslensku samfélagi? Eru forsvarsmenn spítalans ekki að kalla eftir að við horfum á þörfina sem fyrir liggur? Er lögreglan ekki að kalla eftir að á hana sé hlustað þegar hún segir að aukinn ferðamannafjöldi kalli á aukin umsvif löggæslu? Verðum við ekki að hlusta á alla þessa aðila? Hlusta á sveitarstjórnarmenn þegar þeir segja að tekjustofnar þeirra nægi ekki til að sinna lögbundnum skyldum? Er þetta fólk allt saman að ljúga? Auðvitað ekki. Við verðum einfaldlega að vera fólk til þess að heyra mat aðila á því hvað þarf. Ég segi að það mat þurfi að vera fyrirliggjandi. Við getum vissulega rökrætt það. Við skulum gera það á grunni tölulegra staðreynda og upplýsinga.

Svo kemur einfaldlega að pólitíkinni. Ég held því ekki fram að hægt sé að sinna allri fjárþörf í opinberum rekstri í einu vetfangi. Ég held því ekki fram að hægt sé að ráðast í allar opinberar fjárfestingar sem þarf í einu vetfangi, sérstaklega ekki núna þegar svona umsvifamiklar framkvæmdir eru að fara í gang í atvinnulífinu, eins og í stóriðju, sem mynda ruðningsáhrif og þenslu. Ég held því ekki fram. Það sem ég er að kalla eftir er langtímahugsun, tímasett plan. Hvenær ætlum við að ráðast í þetta? Hvernig ætlum við að gera þetta? Hvernig ætlum við að hafa þetta sjálfbærara? Mér finnst ég tala úr alveg ágætum stól þegar ég bið um þetta vegna þess að ég, ásamt öðrum þingmönnum á síðasta kjörtímabili, stóð einmitt að því að samþykkja slíka áætlun til þriggja ára sem hét fjárfestingaráætlun. Það er mjög góð og þörf hugsanaæfing að ímynda sér veröldina ef staðið hefði verið við þá áætlun, eins og ég rakti áðan.

Ég vil gera það að mínum lokaorðum að auglýsa eftir því að ríkisstjórnin sem núna situr setji fram sína fjárfestingaráætlun, sína áætlun um uppbyggingu innviða og uppbyggingu samfélagsins vegna þess að hana sé ég ekki í þessum fjárlögum.