145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef hlustað sérstaklega eftir þessum athugasemdum hjá hv. þingmanni sem hefur með reglulegu millibili gagnrýnt vinnubrögð, bæði hér á Alþingi almennt og ekki síst í fjárlaganefnd.

Það er þetta sem maður hefur áhyggjur af. Þetta er afturför. Þarna erum við að hverfa aftur til þeirrar nálgunar að mönnum þyki það boðlegt að fjárlaganefndarmenn hitti hagsmunaaðila úti í bæ og skili svo tillögum á servíettu sem verður að einhvers konar úthlutun við afgreiðslu hér á Alþingi, sem er náttúrlega fyrir neðan allar hellur.

Við vitum að við eigum til ferla, eins og hv. þingmaður hefur hér nefnt, sem væru ekki SMS-styrkir frá forsætisráðherra og ekki servíettunálgun frá einhverjum öðrum heldur eru lýðræðislegir, faglegir og gegnsæir ferlar; það er krafan, lýðræðislegir, gegnsæir og faglegir. Það eru sóknaráætlanir landshluta, það er verkfæri sem er til. Þar erum við líka að tryggja að sveitarfélögin njóti þeirrar virðingar sem þeim ber. Þau hafa á að skipa sérfræðingum, heimamönnum, fólki sem veit hvað það vill, veit hvernig það (Forseti hringir.) vill forgangsraða. Það á ekki að niðurlægja sveitarstjórnarstigið þannig að það þurfi að ganga fyrir fjárlaganefnd til að sannfæra hana með einhverjum framboðsræðum um að fjármagn þurfi í sjálfsögð verkefni.