145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:47]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi því í raun að það sé ekki bara þverpólitískur skilningur á þessu máli heldur sé líka mjög ríkur skilningur á því úti í samfélaginu að þetta sé mikilvægt verkefni.

Ég vil árétta það sem ég sagði hér áðan í ræðu minni að það hljóti að hafa verið einhvers konar yfirsjón hjá núverandi meiri hluta að setja ekki meiri peninga í þetta tiltekna verkefni núna, eins og hefur verið bent á í ræðu og riti. Eiríkur Rögnvaldsson prófessor benti sérstaklega á að líkja mætti stöðu íslenskrar tungu að því leytinu til við loftslagsvandann að þegar vandinn yrði okkur sýnilegur væri kannski of seint að snúa við. Þess vegna þurfum við í raun og veru að ráðstafa fé í þetta strax, m.a. með þeirri nálgun sem hv. þingmaður nefnir þó að ég ætli ekki að fara í smáatriðum ofan í einstök tæknileg útfærsluatriði í þeim efnum. Ég treysti þeim best sem eru á vettvangi en tel að (Forseti hringir.) þarna eigum við að standa saman sem ein heild, Alþingi Íslendinga.