145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir þessa ræðu. Ég vil aðeins ræða geðheilbrigðismálin sem þingmaðurinn fór efnislega mjög vel yfir og ég kann því svo vel þegar umræður eru teknar með rökum og staðreyndum eins og þingmaðurinn gerði í stað þess að vera með hálfgerðan hálfsannleik.

Ég var ekki búin að heyra þær upplýsingar sem komu fram á fundi hv. velferðarnefndar í morgun um þá einstaklinga sem eru búsettir á þjóðarsjúkrahúsinu. Það er gleðilegt að verið sé að skoða úrræði fyrir þá einstaklinga eins og kom fram í ræðunni. Þetta er einmitt hluti af stefnu stjórnvalda nú, og birtast í heilbrigðisáherslum frumvarpsins og breytingartillagnanna, að fara af stað með hliðarverkefni eins og til dæmis að styrkja heilsugæsluna og þar af leiðandi, eins og stendur í frumvarpinu, að ráða inn í heilsugæsluna sálfræðinga til að grípa einstaklinga, sérstaklega kannski ungt fólk, fyrr til þess að létta á spítalanum og barna- og unglingageðdeild.

Ég kann því vel, virðulegi forseti, þegar málin eru rædd svona málefnalega því að um það snýst núna þessi heilbrigðisumræða, að létta á Landspítalanum. Það er jafnframt þannig að inni á þjóðarsjúkrahúsinu liggur fólk sem eru ekki úrræði fyrir sem við verðum þá að huga að í framtíðinni og byggja til dæmis fleiri hjúkrunarrými.

Þetta er eiginlega hrós, virðulegi forseti, frekar en andsvar.