145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum alveg sammála um þetta. Þetta er mikið gleðiefni og mig minnir að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi talað um að það væri svigrúm til að ráða 12 sálfræðinga. Þetta er óstaðfest og ég var að reyna að rifja það upp á meðan ég var að undirbúa mig fyrir þetta andsvar. Mig minnir það, en þá munar líka virkilega heilmikið um það.

Þingmaðurinn talaði aðeins um fangelsismál og ég hef alltaf talað fyrir betrun þar. Það er alveg af sama meiði að tala um betrun í geðheilbrigðismálum að því leyti að grípa einstaklingana fyrr, áður en málin eru komin í óefni eins og þingmaðurinn sagði, ef þetta yrði jafnvel til þess að spara ríkinu lyf til framtíðar er þetta „win-win“-staða. Náttúrlega skiptir mestu máli að því fólki sem er veikt sé hjálpað sem fyrst og að kerfið haldi utan um það. Þess vegna er ég afar ánægð með áherslur hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, með þessa sýn. Þess ber líka að geta að á síðasta þingi lagði hv. þm. Karl Garðarsson fram þingsályktunartillögu sem sneri að því að greina börn þegar þau væru komin á skólaaldur. Það er afar brýnt mál. Mig minnir að ferillinn á þeirri þingsályktunartillögu, sem ég held að hafi ekki verið samþykkt, hafi verið sá að þetta færi inn í nýja heilbrigðisstefnu sem unnið er að hörðum höndum núna í heilbrigðisráðuneytinu.

Ég er mjög ánægð með að hér sé sameiginlegur skilningur (Forseti hringir.) á þessu verkefni því að það er öllum til góða að sem flestir Íslendingar hafi heilsu og heilbrigði.