145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:33]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er allt rétt. Ég tek alveg sérstaklega undir það sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur sett fram. Ég er sammála því að þingmenn þurfi hreinlega kennslu eða alla vega upprifjun á helstu köflum um það sem gerðist hérna fyrir hrun. Fólk virðist vera tilbúið að gleyma. Allt í einu vaknaði ég, 18 ára stelpa, upp við það að allir bankar höfðu hrunið í landinu. Ég spurði kennara minn í latínu hvort ég mætti hlaupa yfir Lækjargötuna og taka allan peninginn minn úr bankanum. Þetta er eitthvað sem ég upplifði. Ég var viss um að nú væri þetta bara búið.

Núna er ég búin að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsök og aðdraganda bankahrunsins. Þegar ég sé þessi sömu stef koma aftur, eins og það sem hv. þingmaður las upp áðan, þá er það nákvæmlega það sama og var í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins 1996 og nákvæmlega það sama og var í yfirlýsingu þegar átti að selja bankana 2001–2003. Ég verð því að spyrja og það er mitt hlutverk sem þingmanns í stjórnarandstöðu að spyrja og hafa eftirlit með því sem meiri hlutinn er að gera. Mér þykir mjög alvarlegt það sem við sjáum hérna. Það er mjög alvarlegt að með pólitískum hætti skuli vera vegið að fjárhagslegu sjálfstæði umboðsmanns Alþingis. Ég vona virkilega, því að það er mjög mikilvægt, að meiri hlutinn taki pólitíska ákvörðun um að styrkja umboðsmann Alþingis út af því að það er ekki mikið eftir af þeim trúverðugleika sem meiri hlutinn hefur eins og stendur.