145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vandamálið er einfaldlega það að haldinn er fundur á laugardegi sem virðist vera vegna þess að stjórnarmeirihlutinn vill ljúka umræðunni sem fyrst. Þetta er þannig mál að það þarf að ræða það ítarlega. Það hefur verið rætt mjög málefnalega hingað til.

Ég vil benda á ákveðna kaldhæðni sem felst í þeirri niðurstöðu að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir geti ekki tekið til máls. Ef ætlunin er að klára í dag kemst hv. þingmaður ekki að í 2. umr., sem þýðir að hæstv. forseti hefur búið til hvata til þess að tefja umræðuna hér og nú, sem væri annars engin ástæða til, til þess að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir komist að og geti flutt ræðu sína á mánudaginn í kjölfar þess að hafa kynnt sér það sem hefur gengið á í þessari viku meðan hún var úti. Þetta er mjög vondur hvati. Ég er ekkert að segja að hann verði nýttur, en ég vil bara benda á að þetta er gallinn við að halda fund á laugardegi, sér í lagi með svona skömmum fyrirvara.