145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég lít svo á að Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalagið séu sá vettvangur sem setur fram kröfurnar, að þau heildarsamtök, samtök þeirra sem þurfa að lifa á þessum upphæðum, séu sá vettvangur sem leggur fram kröfurnar. Þau hafa lagt þær fram. Þær eru skýrar. Það sem við getum gert í þingsal er að enduróma þessar kröfur, gefa þeim rödd hér í þingsal, ýta á stjórnarmeirihlutann um að verða við kröfum þessa fólks. Það er það sem við höfum gert. Við gerðum það við 2. umr. fjáraukalaga og munum gera það aftur við 3. umr. fjáraukalaga óverulega breytt. Við skynjum að krafa þessara hópa á hljómgrunn miklu víðar en hjá stjórnarandstöðunni. Þetta er ekki baráttumál stjórnarandstöðunnar einnar, þetta er baráttumál allra í samfélaginu sem vilja réttlátt þjóðfélag. Þess vegna er það okkar verkefni að koma meiri hlutanum í skilning um að ekki verður unað við minna en það að verða við réttmætum kröfum þessara hópa.