145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

móttaka flóttamanna.

[11:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að hafa skilning á þeim málaflokki sem við ræðum hér. Ég vil líka segja að þrátt fyrir að við séum stundum að takast hér á um einstök mál höfum við, a.m.k. á meðan ég hef verið hér í þingsal á þessu kjörtímabili, alltaf átt gott samtal við Alþingi um málefni flóttamanna almennt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé góð tenging á milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins þegar kemur að svona viðkvæmum málaflokkum. Það er ekki síst þess vegna sem ég vonast til að við getum átt skýrsluumræðu hér í vikunni.

Hv. þingmaður talaði um sýrlensku fjölskylduna sem hlotið hafði hæli í Grikklandi. Á grundvelli reglna varð niðurstaða Útlendingastofnunar með þeim hætti að ekki væri unnt að taka efnislega umfjöllun á Íslandi. Það mál er núna hjá kærunefndinni og er afar mikilvægt að það hafi ratað þangað. Ég hygg að við munum fá niðurstöðu í því máli, eftir því sem ég kemst, mjög snemma á næsta ári, væntanlega undir lok janúarmánaðar. Þá sjáum við hver niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er og ég held, án þess að ég hafi hugmynd um hver niðurstaðan verður, að við munum sjá meira stefnumarkandi ákvörðun þar með tímanum.

Ég get hins vegar alveg skilið þær hugrenningar hv. þingmanns að það skjóti nokkuð skökku við að á sama tíma og við tökum á móti Sýrlendingum séu aðrir Sýrlendingar jafnvel að hverfa héðan á braut.

Til að sýna aðgát vil ég á þessu stigi málsins ekki ganga lengra en ég geri með þessum orðum. Ég vil bíða eftir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og sjá að hvaða niðurstöðu hún kemst og hvernig málið lítur þá út.