145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt málefnaleg. Það kom mér að vísu svolítið á óvart hvað hún var mikið um breska Íhaldsflokkinn og hv. þingmaður dró þá ályktun að milli þess sem breski Íhaldsflokkurinn gerir í viðkomandi málaflokkum og Sjálfstæðisflokkurinn sé samasemmerki. Ég veit ekki alveg af hverju hv. þingmaður dregur þá ályktun. Má ég þá ræða hér um það sem breski Verkamannaflokkurinn hefur gert og setja samasemmerki milli þess og Samfylkingarinnar? Það er af nokkru að taka. Það er óhemjuvondur flokkur, búinn að hafa skelfilega leiðtoga og það verður ágætt að fá að vita hvort samanburður við Samfylkinguna sé eðlilegur.

Hv. þingmaður vísaði í bótamálin og ég held að réttara væri að líta okkur nær þegar kemur að þeim þáttum. Við í hv. fjárlaganefnd höfum fengið kynningar frá Tryggingastofnun um það sem gert er annars staðar á Norðurlöndunum og það er nú þangað sem menn líta meira til. Einnig fór flokkssystir hans, Björg Vilhelmsdóttir, ágætlega yfir þetta í viðtali sem vakti athygli af góðri ástæðu en spurningin er þessi: Má ég, svo hann veiti mér alveg nýjan vinkil í pólitískri orðræðu, draga þá ályktun að ég megi heimfæra allt það sem breski Verkamannaflokkurinn gerir yfir á Samfylkinguna? Það er kannski fyrsta spurningin.

Síðan er spurning númer tvö. Svo við förum praktískt í þetta þá veit hv. þingmaður að það er búið að bæta mjög vel í bæturnar þó að þar sé auðvitað mikið verk óunnið sem við náum ekki að ræða hér, en hvernig sér hann fyrir sér samspil bóta og lágmarkslauna? Finnst honum eðlilegt að bætur séu hærri, lægri, svipaðar? Bara prinsippspurning.

Og svo að endingu vegna þess að ég hef átt svolítið í orðræðu við hv. þingmenn Samfylkingarinnar um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Hver er afstaða hv. þingmanns til þess? Er hann á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustu?