145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður mun örugglega ekki taka neinni leiðsögn frá mér um það (Gripið fram í.) hverja hann getur kennt mér sem hugmyndafræðilega leiðtoga mína hér eða þar. Þess vegna ætla ég ekki þá dul að segja það að öðru leyti en því að benda honum á það að ef hann sér hugmyndafræðilega eftiröpun mína frá einhverjum öðrum flokkum þá má hann alveg gera það að umtalsefni eins og ég geri hér. Ég þykist kenna það í því þegar fjármálaráðherra landsins fer í herferð gegn öllum lífeyrisþegum landsins, 48 þús. manns, þar af 32 þús. ellilífeyrisþegum, vegna þess að hann sér ofsjónum yfir einhverjum örfáum ungum einstaklingum sem kunna að vera að fara á örorku. Þetta er andstyggileg orðræða. Það er verið að stilla upp öryrkjum sem afætum á samfélaginu og koma þeirri hugmynd inn að fólk eigi val um að vera á örorku og eigi bara að dratta sér af henni. Þar kenni ég hugmyndafræðilegrar stöðu með breska Íhaldsflokknum og það er það sem ég var að gera að umtalsefni hér.

Björk Vilhelmsdóttir hefur nefnt það að skilyrðingar komi til greina í félagsaðstoð sveitarfélaga sem er allt annar þáttur en bætur almannatrygginga og er vert að ræða það líka, muna það, og rugla ekki því tvennu saman.

Varðandi fjárhæð bóta, ég veit ekki hvort ég kemst til að svara meiru í þessu svari, þá eiga bætur almannatrygginga að tryggja fólki fullnægjandi lífsframfærslu hafandi mið af því að fólk á ekki val um það að vera á bótunum og örorkulífeyrisþegar sérstaklega geta þurft að vera alla ævina á bótunum. Þar af leiðandi má ekki myndast bil á milli þeirra og lágmarkslauna.