145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eins með mig, ég geri nánast ekki neitt með þetta andsvar hv. þingmanns. Hann kemur ekkert inn á það sem ég gerði að umtalsefni í upphafi ræðu minnar þegar ég óskaði eftir nærveru hv. varaformanns fjárlaganefndar, að hann væri hér við ræðu mína og brygðist kannski við henni, heldur fer hv. þingmaður inn í erfiðleikaárin fjögur, fimm þar sem þurfti að segja upp fólki og draga saman seglin jafnt í heilbrigðisþjónustu sem annars staðar, en var alltaf talað um að þyrfti að skila til baka.

Hv. þingmaður leiddi að því líkur að í einhverju svari sem hann fékk hefði fækkun ríkisstarfsmanna aðallega verið í heilbrigðisþjónustu og ef ég heyrði rétt á Landspítalanum. Já, ég þykist vita að ég hafi heyrt þær tölur og ég þykist vita að ég muni rétt, getur verið að það séu 5.500 starfsmenn á Landspítalanum? Og getur verið að þeim hafi fækkað um 200 eða 250 eða 300? Ég man ekki þá tölu. En það sem mér finnst merkilegt núna eftir að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar, sem hv. þingmaður átti sæti í, hefur farið um ríkiskerfið er að þau komast að þeirri niðurstöðu við fjárlagagerð 2016 að búa til nýja stofnun, húsameistara ríkisins, það er opnað nýtt sendiráð í Frakklandi, sem var lokað í tíð síðustu ríkisstjórnar, og það er búið til eitthvert nýtt apparat í ferðaþjónustunni í staðinn fyrir Ferðamálastofu og allt það sem til er þar. Með öðrum orðum, ég vil ekki nota orðið báknið eins og ungir sjálfstæðismenn gera, heldur bara ríkisumsvif og ríkisrekstur. Hann er greinilega að aukast hvað þetta varðar. Og þegar ég tala um forgangsröðun þá gerði ég sérstaklega að umtalsefni í upphafi máls míns það sem varðar Landspítalann og heilbrigðisþjónustuna. Ég talaði líka um málefni aldraðra og öryrkja og leiddi meðal annars (Forseti hringir.) líkur að því að í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem (Forseti hringir.) hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur stutt frá sumardögum 2013, hafi örorkulífeyrir hækkað (Forseti hringir.) um 10 þús. kr. eftir skatt.