145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:13]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum halda áfram með ræðu hv. þm. Helga Hjörvars. Hann ræddi líka svolítið mikið um Landspítalann og að spítalinn skuli ekki fá allt það fjármagn sem hann óskar eftir.

Í tíð þessarar ríkisstjórnar á síðustu þremur árum hafa framlög til Landspítalans aukist um 30%. Það er bara staðreynd. Það þýðir ekki að spítalinn fái allt það fjármagn sem hann þarf. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um það. Við þurfum að gera mun betur varðandi framlög til Landspítalans. En ég verð að segja að mér finnst það ansi gott að á þremur árum skulum við ná að auka framlög til Landspítalans um 30%. Varla getur hv. þingmaður verið ósammála því að það taki meira en þrjú ár að koma þessu stóra skipi sem Landspítalinn er á réttan kjöl.