145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er um að ræða fjárhæðir sem hlaupa á hundruðum milljarða. Það er erfitt að nefna nákvæma tölu því að það fer eftir því meðal annars hvernig menn reikna til verðmæta hlutabréf í banka sem eru óviss því að illa hefur gengið að finna kaupanda að honum og ýmsa aðra þætti.

Það sem er ástæða til að hafa áhyggjur af er að það hefur hent okkur Íslendinga áður í sögunni að ofmeta hag okkar og framtíðarhag og það a.m.k. hringir öllum aðvörunarbjöllum að svona stuttu eftir að þessir samningar eru gerðir er vaxtabyrði ríkissjóðs engu að síður svo þung að menn telja sig ekki eiga fyrir nauðsynlegum útgjöldum eins og þeir þó eru sammála okkur í stjórnarandstöðunni og samtökum lífeyrisþega og Landspítalanum um að þyrfti að ráðast í.