145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er kominn svolítill galsi í mannskapinn og það er ekkert óeðlilegt. Við erum hér á sjöunda kvöld- og næturfundi um þetta mál.

Það sem ég velti fyrir mér er ekki bara hvenær fundi verður slitið í kvöld heldur er ég að fara á fund allsherjar- og menntamálanefndar kl. hálfníu í fyrramálið. Varamaður minn situr í þeirri nefnd og hér var nefndur löglegur hvíldartími. Ég er líka fjárlaganefndarfulltrúi þannig að mér þykir eðlilegt að vera við þessa umræðu.

Það er alveg ljóst að það þarf að klára fjárlög, fjáraukalög, bandorminn og ýmis dagsetningarmál. Það er alveg ljóst, fyrir áramót þarf það að gerast. Hvað græða ríkisstjórnin og fótgönguliðar hennar á því að koma ekki til samtals núna? Vilja þau frekar koma til samtals 29. desember? Er það betra? Er það betra fyrir ásýnd þingsins? Er það betra fyrir þinghaldið? Er það betra fyrir ríkisfjármálin og þá sem stóla (Forseti hringir.) á það sem þar fæst úthlutað? Ég held að það skipti máli að við gerum þetta fyrr en síðar.