145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það eru allnokkur dæmi í þessari umræðu um tvískinnung og það hvernig orð og athafnir fara ekki saman. Það sem er kannski mest sláandi er að forusta íslensku ríkisstjórnarinnar tekur undir nýju sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna um að útrýma fátækt í heiminum, sem er útlátalítið fyrir ráðherra að gera þegar það snýst um fjarlægar álfur og lönd og snýst um undirritun, myndatöku eða eitthvað slíkt, en á sama tíma beitir forustan beinlínis pólitískum áhrifum sínum í því skyni að viðhalda fátækt á Íslandi, eins og gert er í gegnum þá staðföstu andstöðu við að aldraðir og öryrkjar fái afturvirkar hækkanir á sinni framfærslu. Ég held að það sé afar mikilvægt að halda þessum tvískinnungi til haga vegna þess að þessi ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna er ekkert annað en einbeittur vilji til að viðhalda kjaramun, ójöfnuði og fátækt á Íslandi. Maður vill eiginlega ekki trúa því að það sé þannig að fólk gangi beinlínis fram í sínu pólitíska erindi til að viðhalda fátækt eða jafnvel auka hana, en maður hefur miklar áhyggjur af afstöðu sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra til fátæks fólks á Íslandi eftir að hann fann sig í því á þingfundi fyrr í dag að etja saman (Forseti hringir.) fátækasta fólkinu á Íslandi og efna til ófriðar milli annars vegar aldraðra og öryrkja og hins vegar þeirra hópa sem lægst hafa launin.