145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að hæstv. menntamálaráðherra er kominn í hús, enda eru nokkrar brýnar spurningar sem mig langar til þess að fá skýr svör við frá honum. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi þingheim um stöðuna á því máli sem ráðherrann reyndi að koma í gegnum ríkisstjórn en virðist vera fast.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvort það sé útséð með að tillaga hans um útvarpsgjaldið komi fyrir þingið. Ef svo er ekki, hvað hyggst ráðherrann þá gera? Ég er ekki frá því að það sé hreinlega þingmeirihluti fyrir tillögu ráðherrans og ég tel mjög brýnt að hún komi fyrir þingið. Því langar mig að spyrja ráðherrann hvort hann telji möguleika á að finna einhverja leið til þess að bera tillöguna undir þingheim allan þrátt fyrir að málið hafi ekki fengist afgreitt úr ríkisstjórn.

Ég varð pínulítið slegin áðan, ég verð að viðurkenna það, þegar þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti okkur þingmönnum minni hlutans að Sjálfstæðisflokkurinn hygðist ekki styðja tillögu ráðherrans. Mér finnst það bara mjög dapurlegt og ég vonast til þess að við þingmenn og þingflokksformenn minni hlutans getum hvatt þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins til dáða til að tryggja að þessi mikilvæga breyting verði hluti af fjárlögum.

Ég bíð bara og dreg ályktanir af því að ég hef ekki fengið svör, en ef sú staðreynd liggur fyrir að ekki muni takast að tryggja rekstrargrundvöll fyrir Ríkisútvarpið horfum við fram á mjög alvarlega tíma og mjög alvarlega stöðu fyrir Ríkisútvarpið.

Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við notum nú skapandi hugsun við að finna lausn á þessum máli. Ég er reiðubúin og ég veit að allir í minni hlutanum og mjög margir í meiri hlutanum líka munu styðja ráðherrann í því að finna þá lausn sem er eina viðunandi lausnin og hún er að útvarpsgjaldið verði óbreytt. Það er kannski hægt að finna einhverja millilendingu, einhverja lausn sem er einhvers staðar þarna í miðjunni, sem við í minni hlutanum héldum reyndar að væri það sem bera ætti á borð fyrir þingið. Ég vil fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort það sé útilokað að finna einhverja millileið, millilendingu í þessu máli.

Við þekkjum öll stöðuna á RÚV og við vitum að ein af meginástæðum þess hve illa hefur gengið hjá RÚV að ná endum saman eru tveir þættir. Ég held að RÚV hafi aldrei fengið nefskattinn allan, sem mér finnst alvarlegt brot á stjórnsýslunni. Ef tekinn er skattur af almenningi sem er eyrnamerktur einhverri stofnun, eins og RÚV í þessu tilfelli, á að sjálfsögðu ekki að nota þann skatt í neitt annað.

Síðan liggja lífeyrissjóðsskuldbindingarnar mjög þungt á RÚV. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort það standi til að gera eitthvað til þess að létta þeirri byrði af Ríkisútvarpinu. Síðan langar mig líka að spyrja hvort það sé eitthvert markmið hjá ríkisstjórnarflokkunum að hætta að reka ríkisfjölmiðil. Er það stefna ríkisstjórnarflokkanna? Af hverju náðist ekki að afgreiða mál ráðherrans?

Það virðist vera að ekki bara þetta mál heldur fjöldamörg önnur sem stranda hjá ríkisstjórninni. Ég hef áhyggjur af mjög mörgum málum sem ekki hafa náðst út og fyrir vikið eru fjárlögin ansi götótt. Það er ekki gott. Það er ekki góð stjórnsýsla og það er einhvern veginn ekki í anda íhaldsmanna að leggja fram fjárlög sem eru svo gloppótt og gölluð. Ég hefði talið að það væri akkúrat í anda Sjálfstæðisflokksins að leggja fram traust og trúverðug fjárlög. Ekki get ég sagt að það sem er að gerast hér með útvarpsgjaldið sé í anda þess af því að búið er að boða að ráðherra málaflokksins vilji haga málunum á einn veg og höfðu allir gert ráð fyrir því að það mundi fara á þann veg að útvarpsgjaldið yrði óskert. En nú á lokametrunum virðist sem svo verði ekki. Ég verð þá að spyrja hæstv. ráðherra í einlægni hvort að það sé ekki einlægur vilji ráðherrans að tryggja að útvarpsgjaldið verði óskert.

Ég veit að langflestir sem ég hef talað við eru því fylgjandi að borga einhverja hundraðkalla aukalega á ári í þetta útvarpsgjald ef það verður ekki skert.

Mig langar líka að spyrja: Hvað finnst ráðherranum um þá staðreynd að gjald sem okkur er sagt að tekið sé af skattinum okkar til þess að standa vörð um Ríkisútvarpið sé svo bara ekki notað allt í Ríkisútvarpið? Hvers konar stjórnsýsla er það? Finnst ráðherranum það ásættanlegt eða í anda íhaldsmennsku sem gefur sig út fyrir að vera staðföst og skýr?

Síðan langar mig líka að benda á að það er hreinlega búið að skera inn að beini, svo maður sé í klisjunum og myndlíkingum sem mikið hafa verið notaðar t.d. um heilbrigðiskerfið, Ríkisútvarpið má ekki við frekari skerðingum. Það er búið að skera inn að beini, heldur betur, og mjög margt hæft starfsfólk hefur verið látið fjúka.

Mig langar að velta því upp hvort fólk átti sig almennt ekki á hlutverki ríkisfjölmiðils. Hlutverk ríkisfjölmiðils er meðal annars að hlúa að okkar pínulitlu eða agnarsmáu menningu, tungu. Hlutverk Ríkisútvarpsins samkvæmt skilgreiningum er jafnframt að geta boðið upp á ítarlegar og djúpstæðar fréttaskýringar. Hlutverk Ríkisútvarpsins er ekki endilega að vera með léttmenningu frá öðrum löndum. Það er hægt að ná sér í alla þá sjónvarpsþætti sem mann lystir á Netflix eða einhverju svoleiðis og auðvitað erum við öll sammála um að það þarf virkilega að setja Ríkisútvarpið inn í nútímann.

En það er hægt og bítandi að gerast. Búinn hefur verið til svokallaður Sarpur þar sem hægt er að ná sér eldra dagskrárefni. En enn er staðan þannig að af einhverjum ástæðum hefur Ríkisútvarpið ekki efni á að vera með almennileg gagnasöfn aðgengileg langt aftur í tímann, t.d. hluti sem mjög auðvelt er að sækja og ekki eru háðir höfundarétti eins og fréttir og fréttaskýringar. Það er ekki hægt að ná í slíkt langt aftur í tímann, því miður, og reyndar bara mjög stutt aftur í tímann, kannski þrjá til fjóra, fimm mánuði, sem er mjög slæmt.

Fréttavefur RÚV hefur ekki náð að skapa sér þannig stöðu að hann sé einn af vinsælustu fréttavefjum landsins. En á móti kemur að samkvæmt lögum má ekki auglýsa á vef RÚV og ekki afla sérstakra tekna með því sem þar er gert þannig að RÚV er mjög þröngur stakkur sniðinn. Margir eru hlynntir því að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði en þá verður náttúrulega að tryggja rekstrargrundvöll á annan máta. Með því að skerða útvarpsgjaldið er í raun verið að gera það algjörlega ómögulegt að taka RÚV af auglýsingamarkaði.

Mér finnst það vera gríðarleg afturför. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er eiginlega verið að bjóða ríkisfjölmiðlum upp á til þess að tryggja hér eðlilegt jafnvægi á fjölmiðlamarkaði? Í aðra röndina eru margir sem vilja fá RÚV af auglýsingamarkaði og eins og ég kom inn á er vefurinn þannig að þar eru ekki auglýsingar, sem er í sjálfu sér alveg ágætt, en þá verður að tryggja rekstrargrundvöll þannig að hægt sé að reka almennilegan vefmiðil hjá Ríkisútvarpinu.

Ríkisútvarpið þarf að geta varðveitt þau gríðarlegu menningarlegu verðmæti sem þar eru til staðar. Maður hefur alltaf áhyggjur af því þegar fólk talar eitthvað niður sem haft hefur jafn mikil áhrif á menningu okkar og gegnir jafn mikilvægu hlutverki og Ríkisútvarpið. Því miður hefur það verið þannig að RÚV hefur ekki getað sinnt almennilega skyldum sínum úti á landi vegna þess að mjög margar af starfstöðvunum voru lagðar niður vegna fjárskorts. Annaðhvort ætlum við að hafa fjölmiðil sem virkar, sem er miðill allra landsmanna og þá verðum við að tryggja rekstrargrundvöll til þess, eða þá að RÚV verður kæft niður.

Ég fékk sent bréf frá hollvinum Ríkisútvarpsins. Eins og væntanlega hefur ekki farið fram hjá neinum hefur verið mikil auglýsingaherferð hjá Ríkisútvarpinu í samlesnum auglýsingum til þess að minna okkur þingmenn á að standa vörð um RÚV. Ég ætla að lesa þetta, þetta eru örfáar, örstuttar auglýsingar. Mér finnst þær segja meira en margt annað:

„Alþingismenn. Hróflið ekki við hornsteinum íslenskrar menningar. Tryggið Ríkisútvarpinu traustan fjárhagsgrundvöll.

Ríkisútvarpið sameinar þjóð í mennsku og menningu. Eflum RÚV. Eflum samfélag.

Alþingismenn. Ríkisútvarp í þjóðareigu er hornsteinn lýðræðis og menningar í landinu. Gleymum því aldrei.

Mér þykir vænt um Ríkisútvarpið. Ég skora á alþingismenn að skera ekki frekar niður útvarpsgjaldið.

Alþingismenn. Þjóðinni þykir vænt um Ríkisútvarpið. Skerðum ekki útvarpsgjaldið.

Alþingismenn. Þjóðin reiðir sig á Ríkisútvarpið. Skerðum ekki útvarpsgjaldið.“

Undir þessar auglýsingar skrifa mjög margir sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir vel og ber mikla virðingu fyrir. Margir listamenn og þjóðþekktir einstaklingar láta sig útvarpið miklu varða.

Ég verð bara að segja að ég varð pínulítið þunglynd þegar ég fékk þau skilaboð í dag um að það líti ekki út fyrir að það takist að tryggja raunverulegan rekstrargrundvöll fyrir Ríkisútvarpið. Kröfurnar um niðurskurð sem verið hafa á Ríkisútvarpið hafa verið óheyrilega miklar á sama tíma og það hefur ekki fengið þær tekjur sem það þarf til þess að geta rekið miðilinn á sómasamlegan hátt.

Við höfum misst ótrúlega marga, frábæra dagskrárgerðarmenn og þetta hafa verið mjög þung ár hjá Ríkisútvarpinu. Við höfum líka misst frábæra tæknimenn og alls konar aðila sem gert hafa RÚV að því samfélagi sem hefur birst okkur, endurspeglun á samfélagi okkar, og það er nauðsynlegt aðhald, m.a. á okkur. Það er allt að molna, sem er miður. Eins og álagið er mikið á mörgum starfsstéttum er ekki síður mikilvægt að þeir sem taka saman flókna samfélagslega þætti sem lúta að til dæmis þörfum okkar eða öðrum stórum einingum samfélagsins séu skýrir og hafi nægilegan tíma og stuðning til þess að geta innt þau mjög svo vandasömu verk vel af hendi.

Það er tákn um samfélag sem færist nær siðleysi ef það hefur ekki öflugt aðhald fjórða valdsins. Það er bara þannig. Það er svo mikilvægt að hafa gott aðhald fjórða valdsins og það er er agalega vont fyrir okkur og framtíð okkar að draga tennurnar úr þeim fjölmiðli sem á tæknilega séð að geta verið óháðastur allra.

Ég vil því skora á hæstv. menntamálaráðherra að gefa okkur mjög skýr svör og ég vona að hann komi í andsvör við mig og að ég fái skýr svör við spurningum mínum. Ég skora á þingmenn alla úr stjórnarliðinu sem annt er um ríkisfjölmiðilinn að hjálpast að til að tryggja að útvarpsgjaldið verði ekki skert. Ég skora á þingmenn að hlusta á alla þá sem hafa sent okkur skilaboð undanfarnar vikur um að skerða ekki þetta gjald og að tryggja rekstrargrundvöll fyrir þetta þjóðhagslega mikilvæga verkfæri.

Ég sem stuðningsmaður þess að RÚV fari af auglýsingamarkaði vil sjá það í verki, ég veit að ráðherra er sammála mér um það. En það er ekki hægt með þessu móti. Þetta er ekki rétta leiðin.