145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er sérkennilegt andrúmsloftið hér á Alþingi þessa dagana og er kannski ekki til fyrirmyndar eða eftirbreytni annars staðar en svona er málum stillt upp og stjórnarliðar ákveða að kenna okkur í stjórnarandstöðunni um að málin séu komin í þann mikla hnút sem þau eru komin í. Ég tel það vera hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að standa vörð um þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Það er okkar hlutverk og við sem erum þannig þenkjandi gerum það þótt það kosti það að þurfa að vera hér fram eftir nóttu dag eftir dag. Við reynum að standa í lappirnar og berjast fyrir þeim sem þurfa á því að halda og treysta okkur hér á þingi.

Hér hafa stigið fram þingmenn eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson og í raun lýst því yfir að hann sé sammála okkur í stjórnarandstöðunni um að það þurfi að koma leiðrétting á kjörum aldraðra og öryrkja. Ég treysti því að hv. þingmaður standi áfram við þá skoðun sína og láti ekki beygja sig til hlýðni og hann verði sú fyrirmynd annarra í stjórnarliðinu að koma til móts við okkur í stjórnarandstöðunni, taka þessa umræðu og reyna að lenda málinu með sóma á þessum dögum fyrir þinglok, vonandi. Við erum ekki á því að gefast upp því að ég tel erindi okkar vera brýnt. Það er þyngra en tárum taki að hæstv. forsætisráðherra leggi það eitt til í þessa umræðu að segja að það sé ekkert um að semja og hæstv. fjármálaráðherra etji fólki saman með því að bera saman kjör þeirra lægstlaunuðu á vinnumarkaði og þeirra sem búa við lífeyri og örorkubætur. Það er hæstv. fjármálaráðherra ekki sæmandi.


Efnisorð er vísa í ræðuna