145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa lýst yfir vanþóknun og hneykslan á þeim orðaskiptum sem hafa átt sér stað undir liðnum um störf þingsins og þá sérstaklega kannski orð forsætisráðherra um að hér væri ekkert til að semja um. Það lýsir ákveðnum valdhroka sem mig langar ekki til að sjá frá mínum hæstv. forsætisráðherra.

Ég fór út til að segja hæ við fulltrúa Öryrkjabandalagsins sem standa hér fyrir utan og hvetja okkur til að samþykkja leiðréttingu á kjörum sínum. Ég mæli með því að aðrir hv. þingmenn fari út og geri slíkt hið sama og tali einfaldlega við þetta fólk. Mér skildist á því að það væru ekkert sérstaklega margir sem hefðu gefið sér tíma nú í morgunsárið eða þá í gær til að tala við þennan þjóðfélagshóp og heyra hvernig hann býst við því að halda jafnvel ekki upp á jólin.

Hins vegar er annar hópur sem mig langar líka til að vekja aðeins athygli á, það eru stúdentar. Nú er svo mál með vexti að margir eru að bíða upp á von og óvon eftir því hvort þeir fái greidd út námslán. Sumir sjá jafnvel fram á hinn árlega bardaga við Lánasjóð íslenskra námsmanna út af því að nám þeirra fellur ekki algerlega að þeim reglum og reglugerðum sem LÍN hefur sett, t.d. að námskeið geti ekki verið á tveimur önnum, LÍN er með strangar kröfur um það. Það eru margir stúdentar sem sjá jafnvel fram á að þurfa að taka annaðhvort yfirdrátt hjá bankanum eða fá lán hjá mömmu og pabba og það er eitthvað sem við þurfum líka að fara að huga að. Við þurfum að fara að huga að þessu námslánakerfi sem skorðar fólk við það að geta einungis unnið fyrir 1 millj. kr. á ári og á sama tíma erum við með séreignarstefnu. Hvar á fólk að fá pening? Ég bara spyr.

Við þurfum að fara að endurskoða það hvernig samkomulag við viljum hafa í heildina.


Efnisorð er vísa í ræðuna