145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er náttúrlega sögulega dapurlegt. Eins og hv. þingmaður nefnir er það náttúrlega þyngra en tárum taki að þessi tiltekni hópur, aldraðir og öryrkjar, skuli vísvitandi vera skilinn eftir undir þessum kringumstæðum þegar menn berja sér á brjóst yfir því að hér sé allt á uppleið og finna sig svo í því að bera saman við árið 2009, sem var náttúrlega tímabil sem vonandi kemur aldrei aftur í Íslandssögunni, þegar allir Íslendingar gengu undir okið, hver og einn einasti maður og meðal annars aldraðir og öryrkjar, sannarlega. Sannarlega tóku aldraðir og öryrkjar þátt í því.

En hver er staðan núna? Það eru allir að fá kjarabætur, meira og minna afturvirkt, og líka fólk sem þarf ekkert á því að halda, fólk sem á nóg, að maður nefni nú ekki forustumenn ríkisstjórnarinnar. Það er ekki skortur þar hefði ég haldið. En fólk sem býr við fátækt, efnahagslega fátækt, er vísvitandi skilið eftir. Og svo fáum við hér allra náðarsamlegast, og kannski sem betur fer, að sjá inn í hugarfylgsni hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem ég hélt stundum að væri þó sá sem væri mest döngun í af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, en þvílík ömurð. Þvílík ömurlegheit sem koma fram þegar ráðherrann sýnir okkur inn í sín hugarfylgsni. Þegar hann finnur sig í því að gera því skóna að öryrkjar séu á bótum vegna þess að þeir nenni ekki að vinna. Hann finnur sig í því að orða það hér að það sé hægt að svelta fólk til vinnu, veikt fólk, langveikt fólk, fatlað fólk, fólk sem heyrir ekki eða sér ekki, að hægt sé að kenna því með sveltiaðferðum að koma sér inn á vinnumarkað. (Forseti hringir.) Þetta er staðan sem við búum við. Ef þetta er að gera vel við heimilin (Forseti hringir.) í landinu er alveg ljóst að sum heimili eru þar undanskilin.