145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Jón Gunnarsson um að ég er reiðubúinn að vera hér marga daga og margar nætur í viðbót til að standa í ístaðinu fyrir aldraða og öryrkja. Þeir geta ekkert farið annað en hingað. Þeir hafa farið til hæstv. félagsmálaráðherra sem á að vera þeirra vernd en komið bónleiðir frá henni. Þá er það bara Alþingi. Þetta er kjararáð aldraðra og öryrkja og ég er stoltur af því að geta staðið hér og nýtt málfrelsi mitt til að taka fast á þeirra hlut. Ég er hins vegar ekki stoltur af þingmönnum eins og hv. þm. Jóni Gunnarssyni í þeirri ræðu sem hann flutti áðan. Það er hárrétt sem hann sagði, ég tel að hún sé versta ræða sem hef nokkru sinni hlustað á hann flytja, að heyra hv. þingmann stjórnarliðsins koma hér með augun full af krókódílatárum og segja eins og hv. þingmaður sagði áðan: Ég vil gera betur.

Hvað er ég búinn að hlusta á marga þingmenn stjórnarliðsins segja þetta í dag? Hvað eru þeir að gera betur? Þeir hafa ekkert gert nema rífa sig niður fyrir þind um það sem fyrri ríkisstjórn gerði. Við hvaða aðstæður var það? Það var þegar hér fossuðu 217 milljarðar út um götin á ríkissjóði sem 14 ára ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks skildi eftir. Auðvitað þurftu menn að fara í björgunarleiðangur. En hvað gerðum við? Við vörðum þá sem verst voru settir. Allt samfélagið lenti í niðurskurði en þeir sem voru bara á strípuðum bótum voru ekki skornir. Það er staðreyndin.

Hvernig njóta aldraðir og öryrkjar þess sem hv. þingmaður talaði um sem mesta góðæri lýðveldissögunnar í andsvari áðan? Jú, það er skitinn 10 þúsund kall sem ríkisstjórnin af sinni miklu náð lætur þá fá eftir skatta. Er það eitthvað til að hrósa sér af og tala svo í hina röndina um að fram undan sé svakalegt góðæri og það hafi verið mikið góðæri undir þessari ríkisstjórn? Ég efast ekki um að þessi ríkisstjórn vill vel og hún hefur gert margt vel. En einu hefur hún gleymt, (Forseti hringir.) það eru aldraðir og öryrkjar. Hv. þingmaður hafði ekki kjark til að svara spurningunni sem var þessi: Eru einhverjir aðrir en aldraðir og öryrkjar sem ekki fá greidda hækkun eftir á? Svarið er nei. Þeir eru skildir eftir af hv. þm. Jóni Gunnarssyni, (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.