145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í gær var óskað eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, kæmi til þessarar umræðu, m.a. til að ræða stöðu Landspítalans og heilsugæslunnar í ljósi fjárlagafrumvarpsins sem hér er til umræðu. Ég tel enn ríkari ástæðu fyrir því að hann komi nú til þessarar umræðu en jafnvel áður eftir upplýsingar sem komu frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur sem á sæti í fjárlaganefnd Alþingis þar sem hún skýrði fyrir okkur að í upphaflegum vinnugögnum sem komu fyrir nefndina hafi verið talað um útboð á nýjum heilsugæslustöðvum í Reykjavík. Hún segir að í frekari umfjöllun um málið sé þetta orðalag horfið en hins vegar hafi hæstv. fjármálaráðherra í útvarpsþætti á Bylgjunni (Forseti hringir.) tekið undir með fyrri gögnum um málið um að til standi að bjóða heilsugæsluna út. Eigum við ekki rétt á því að ræða þetta, hæstv. forseti? Er ekki eðlilegt að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hingað og standi fyrir máli sínu? Hvað er rétt í þessum efnum?