145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

lengd þingfundar.

[10:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst þessi umræða fyrir löngu síðan tæmd, þ.e. málið er tæmt og umræðan er fyrir löngu síðan orðin allt of löng.

Ég ætla þess vegna að vera ósammála þeim sem segja að það sé fínt að halda þessu áfram. Ég ætla líka að vera ósammála mönnum þegar þeir segja að það sé ekkert víst að þetta met verði slegið. Hér er sannarlega verið að setja met í umræðu og meðhöndlun fjárlaga Alþingis, en það sem er að gerast er að menn eru í spíral niður á við, niður á við með virðingu þingsins gagnvart þjóðinni. Sjálfsvirðing þingsins er í fallandi spíral niður á við. Menn eru í algjörri sjálfheldu og meðan að menn eru í þessum spíral niður á við getur enginn fullyrt að við séum búin að finna botninn.

Það er alveg eins víst að næst þegar fjárlög koma hér á dagskrá, hvort sem það verður á næsta ári eða jafnvel eftir tvö, þrjú ár, þá (Forseti hringir.) noti menn þetta slæma fordæmi til þess að réttlæta enn lengri og vitlausari umræður.