145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður á erfitt með að fara rétt með. (VigH: Segir hver?) Ég sagði að ríkisstjórn hefði tekið við gjaldþrota búi eftir stjórnarstefnu framsóknarmanna og sjálfstæðismanna sem varði í 12 ár og leiddi til þess sem varð. Hvernig var aftur með innkomu jöklabréfanna í þeirri ríkisstjórnartíð á einhverju kjörtímabilinu? (GÞÞ : Viltu ekki svara spurningunni?) Það hélt uppi … (GÞÞ: Geturðu ekki svarað spurningunni?) Þetta var efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins sem við erum enn að súpa seyðið af. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður, og eru nú vakthafandi stjórnarþingmenn hér gasprandi hver á móti öðrum, að það var ekki með neinni gleði sem þurfti að standa í niðurskurði og skattahækkunum og öðru slíku á síðasta kjörtímabili. Aðstæðurnar voru þannig eins og ég sagði áðan um 220 milljarða halla. Það kom við. (GÞÞ: Var hlutfallslega …?) Það getur vel verið, virðulegi forseti, að þessar tölur séu réttar, ég hef ekki lesið þetta, um niðurskurð. Ég hygg að í heilbrigðiskerfinu séu — hvað, ætli það séu ekki 8 þús. starfsmenn? 5.700–5.800 voru á Landspítalanum á sínum tíma. (GÞÞ: Hlutfallslega mest.)

Þá kem ég aftur að því, virðulegi forseti, sem ég skil vel að hv. þingmaður vilji ekki ræða heldur fer alltaf aftur í erfiðleikaár Íslendinga eftir hrun. Hann ræðir ekki um það sem þau eru að setja fram með villandi upplýsingum um hækkanir til Landspítalans. Hann ræðir heldur ekki um það sem ég gerði hér að umtalsefni og hann kom ekki í andsvar við mig um það. Hann ræddi heldur ekkert um það hvort (Gripið fram í.)hann væri stoltur af því að hafa hækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar greiðslur til aldraðra og öryrkja um 10 þús. kr. á mánuði eftir skatt. (VigH: 26 milljarðar.) — Þarna kemur það nefnilega akkúrat fram vegna þess að ég heyrði ágætlega það sem hv. formaður fjárlaganefndar sagði, 26 milljarðar. Viltu þá ekki segja okkur líka að umbjóðendurnir eru 47–48 þúsund? Þetta er nefnilega (Forseti hringir.) vandamálið, virðulegi forseti. Þarna kemur vandamálið í (Forseti hringir.) hnotskurn. Menn gleyma að taka töluna og deila henni í einstaklingana. Það er (Forseti hringir.) vandinn.