145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:13]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni að þegar við stóðum frammi fyrir 216 milljarða gati á ríkissjóði þá þurfti að taka á víða og því miður gat enginn liður verið alveg undanskilinn í því. En það var tekin ákvörðun um að minnstur niðurskurður skyldi eiga sér stað í velferðarkerfinu og í heilbrigðiskerfinu. Það var ákvörðun sem við stóðum við alveg í gegn. Menn geta svo leikið sér með tölur í því fram og til baka.

En einn var vandinn sem við stóðum frammi fyrir var sá að einkarekni hluti kerfisins var samningsbundinn. Það var ofsalega erfitt að eiga við þann hluta heilbrigðiskerfisins en hins vegar höfðu menn meiri stýringu á því sem fer inn í opinbera hlutann. Ég tel að við þurfum að fara að skoða þessa samsetningu líka. Í dag er það þannig að hver sem er getur farið yfir í einkarekna hluta kerfisins og opnað stofu og byrjað að vinna sem sérfræðingur þar. Það bitnar aftur á opinbera hlutanum og það samspil þarf að skoða.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að við þurfum líka að horfa á heilsugæsluna og það er útflæðisvandi út af sjúkrahúsinu og menn þurfa að fara vandlega yfir hann. Það er líka of mikið álag á bráðamóttöku, fólk sem gæti leitað til heilsugæslunnar o.s.frv. Þetta þekkjum við allt saman og þar þarf að taka á. Þá finnst mér það ekki rétt nálgun að segja: Heyrðu, við ætlum að reyna að leysa þetta með því að bjóða út þrjár heilsugæslustöðvar á einkamarkaði. Eigum við ekki frekar að reyna að kryfja vandann og taka á honum áður en menn fara að láta sér detta í hug slíkar æfingar?