145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Saga ríkisstjórnarinnar, af stefnumörkun í ferðamálum á þessu kjörtímabili, er ein samfelld harmsaga. Náttúrupassafíaskóið fór eins og það fór. Hér er framlag sjálfstæðismanna til átaksins „Báknið burt“, sem er ný ríkisstofnun sem enginn veit hvað á að gera. Svo bætist við að þessi burðaratvinnugrein þjóðarinnar, sem skilar 32% af útflutningstekjum hennar, er niðurgreidd úr ríkissjóði með reglulegu millibili með framlögum af almennu skattfé, sem gæti farið í heilbrigðiskerfið okkar eða menntakerfið, vegna þess að ríkisstjórnin er getulaus að finna ferli til að láta ferðamennina sjálfa greiða fyrir þá uppbyggingu sem er óhjákvæmileg til að greinin geti vaxið. Þetta er algert skipbrot þessarar ríkisstjórnar í ferðamálum, en ég óska sjálfstæðismönnum hjartanlega til hamingju með atkvæði til stuðnings þessari nýju tilgangslausu ríkisstofnun sem enginn veit hvað á að gera.