145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:15]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þó að þessi liður snúi fyrst og fremst að bótum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð þá vil ég fá að ítreka þær þakkir sem ég tiltók í upphafi þessarar atkvæðagreiðslu varðandi þær tillögur og þann samhug sem ég finn hér í þinginu um að auka framlög til almannatrygginga og til félagslegrar aðstoðar.

Hvað varðar hins vegar akkúrat þessa tillögu vil ég nefna að töluverð umræða hefur verið um fjölgun þeirra sem eru á örorku. Sú breyting sem var farið í á sínum tíma, að taka upp endurhæfingarlífeyri, hefur svo sannarlega skilað árangri, skilað árangri fyrir einstaklingana og skilað árangri fyrir samfélagið.

Við sáum fram á að það væri hugsanlega að verða einhver fjölgun þeirra sem voru að koma inn á endurhæfingarlífeyri í lok þess mikla atvinnuleysis sem við fengum að upplifa í framhaldi af hruninu. Það er hins vegar að snúast við aftur og það má sjá ákveðnar breytingar hvað það varðar. Það kerfi starfsendurhæfingar sem þingið hefur einmitt náð (Forseti hringir.) saman um með aðilum vinnumarkaðarins hefur verið að skila árangri. Síðan vil ég líka nefna að hér erum við að auka stuðning vegna bifreiðakaupa hjá þessum hópum og það veitir svo sannarlega ekki af.