145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það hefur margkomið fram í þessari umræðu sem nú er að ljúka að sú ríkisstjórn sem nú situr hyggst hliðsetja ellilífeyrisþega og örorkubótaþega við þá sem lægst hafa laun. Það mun gerast nú þegar um áramótin með þeirri hækkun sem þá verður.

Það sem reynt hefur verið af hálfu stjórnarandstöðunnar er að setja saman yfirboð um að hækka aftur í tímann, sem út af fyrir sig stenst ekki vegna þess að þegar í ársbyrjun voru settir í þetta verkefni 3,9 milljarðar og með viðbótinni sem nú kemur um áramótin verða þessir hópar betur settir en sem lægstu launum nemur. Auk þess hefur stjórnarmeirihlutinn lýst þeim vilja sínum að fyrir árið 2018 verði lágmarkslaun þessa hóps 300 þús. kr. Ég segi því nei.