145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er alger óþarfi að deila um það að síðasta ríkisstjórn þurfti að skera niður til heilbrigðismála, af mjög augljósum ástæðum. Það gerðust ákveðnir hlutir í október 2008 sem settu strik í reikninginn svo að vægt sé til orða tekið. Það er ekkert um það deilt heldur að á undanförnum árum hafa framlög til heilbrigðismála verið aukin. Þó það nú væri eftir þann mikla niðurskurð sem þurfti að ráðast í.

Spurningin sem blasir við er: Er nóg að gert? Og þá verðum við að horfa á hlutina í heildarsamhengi og horfa á heildarmyndina. Við verjum miklu minna fé til heilbrigðismála og spítalans af vergri landsframleiðslu en Skandinavíuþjóðirnar. Við verjum til fjárfestinga í innviðum því næstminnsta af öllum OECD-ríkjunum. Þess vegna er mygla í húsunum. Þess vegna eru þökin að hrynja, vegna þess að við verjum ekki peningum í þetta.

Sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkissjóðs er framlagið 22% minna en það var 2003 og heilbrigðiskerfið verður alltaf dýrara og dýrara út af breyttri aldurssamsetningu og útgjöld vegna langvarandi sjúkdóma aukast og íbúum fjölgar þannig að það verður að gefa í. Er þetta popúlismi? Nei, þetta er einfaldlega það að við erum að horfast í augu við staðreyndir, 3 milljarða vantar til næstu ára. Þingmaðurinn segir já.