145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég segi nei við þessari tillögu. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson spyr: Er nóg að gert? Að sjálfsögðu er ekki nóg að gert. Það vantar fjármuni víða í íslenskt heilbrigðiskerfi, ekki eingöngu Landspítalann eins og hér hefur komið fram heldur líka í heilsugæsluna, í öldrunarþjónustuna, í lyfjamálin o.s.frv. Við höfum forgangsraðað í þágu heilbrigðismála síðastliðin ár. Þingið hefur forgangsraðað með þeim hætti.

Það var nauðsynlegt að draga úr útgjöldum ríkisins í hruninu og í kjölfar þess. Ég held að við séum öll sammála um það. Ég held að við séum líka sammála um að við gengum helst til of langt í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu en við hljótum líka að gera okkur grein fyrir því að það mun taka tíma að vinna okkur í gegnum þann stokk, alveg sama hvernig menn glotta að því, hv. þingmaður. Það tekur tíma. Við leysum þetta ekki með einni handsveiflu og forgangsröðunin, þótt ekki sé nema minnt á umræðuna (Forseti hringir.) fyrir réttu ári í þessum sal, brýnasta forgangsverkefnið í heilbrigðisþjónustunni þá var að tryggja mönnum kerfisins með nýjum kjarasamningum. Það var gert. (Gripið fram í: … fjármagna það.)