145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Með þessari breytingartillögu gerir minni hlutinn tillögu um 200 millj. kr. í loftslagssjóð sem er sjóður sem er til samkvæmt löggjöfinni um loftslagsmál. Loftslagssjóði er ætlað að koma til móts við fyrirtæki og aðila sem hafa áhuga á því að leggja í verkefni í þágu loftslagsvænni þróunar. Hér er um að ræða tækni og þróunarverkefni sem styðja við það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er afar mikilvægt og það var einróma álit þeirra sem kláruðu loftslagssamninginn í París á dögunum að tækniframfarir í þágu þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda væru lykilatriði í þessum efnum.

Ég bið hæstv. ráðherra og virðulegan þingheim að endurskoða afstöðu sína til þessa máls vegna þess að það er afar mikilvægt skref í áttina að því að við náum markmiðum okkar sem ættu auðvitað að vera þau að draga úr losun um 40% bara á Íslandi, vegna þess að annars virkar (Forseti hringir.) það sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. umhverfisráðherra segja á erlendri grundu eins og orðin tóm. (Forseti hringir.) Þetta er algerlega lykillinn að því að Ísland geti staðið undir nafni sem þjóð sem skipar sér fremst í flokki í umhverfismálum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)