145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:29]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að við erum hér á milli umræðna að setja um 400 milljónir til viðbótar í þennan lið sem skiptist á mörg verkefni, ekki síst hvað varðar skógrækt og landgræðslu, og af því að hér var verið að tala um loftslagsmál má segja að þessi liður sameini þrennt: Það að auka skógrækt og landgræðslu er byggðamál, þetta er atvinnuuppbygging, auðlind og auðvitað er þetta stórkostlegt líka varðandi loftslagsmálin því að bæði landgræðsla og skógrækt bindur náttúrlega kolefnið. Ég vek líka athygli á því að þarna er liður eins og ýmis verkefni, framlag umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og það fer í rannsóknir og eitt og annað varðandi aðgerðir í loftslagsmálum.