145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég vil vekja athygli á varðandi þennan lið í fjárlagafrumvarpinu. Í fyrsta lagi höfum við sparað marga milljarða með því að flýta aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem sem betur fer hefur skapast svigrúm fyrir að gera. Það hefur sparað okkur vaxtakostnað og við hefðum getað sett meiri fjármuni beint inn á húsnæðislán heimilanna, verðtryggð, sem við höfum ávallt ætlað að taka sérstaklega á.

Hitt ætla ég að draga hér fram í atkvæðaskýringu, það sem er á bls. 8 í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu þar sem segir að skuldir heimilanna sem voru orðnar alveg sérstakt viðfangsefni og vandamál í miðju hruni, orðnar þær hæstu í sögunni, séu núna orðnar á pari við árið 2004 um það bil. Það er orðið sambærilegt ástand í skuldamálum heimilanna og var fyrir rúmum tíu árum. (Gripið fram í.) Þetta lýsir þeim gríðarlega árangri sem er að nást í skuldaleiðréttingum fyrir heimilin sem eru vegna lægri skuldastöðu (Forseti hringir.) aftur orðin virkir þátttakendur í efnahagslífinu. Fjölskyldurnar og heimilin eru frumeining samfélagsins og það sést með vaxandi einkaneyslu og virkari þátttöku allra með vaxandi kaupmætti.