145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrir tæpu ári síðan eða þegar síðasta vorþingi lauk var samið um að þrjú mál yrðu kláruð í september. Það voru opinber fjármál, það var Þróunarsamvinnustofnun og það voru sanngirnisbætur, sem Ögmundur Jónasson lagði mikla áherslu á.

Ekkert af þessu gekk nú beinlínis eftir nema hvað við stóðum við okkar samkomulagshluta. Við kláruðum sanngirnisbæturnar. Það virðist hins vegar vera ógjörningur fyrir minni hlutann að standa við það sem samið er um.

Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, segist ekki hafa gert neitt samkomulag. En það gerði þingflokksformaður hans sannarlega sem ég trúi ekki að hann ætli enn og aftur að svíkja það sem hann undirritar jafnvel hér í þingsal.

Hvernig er komið fyrir Alþingi þegar menn haga sér með þeim hætti að svíkja trekk í trekk það sem þeir lofa og skrifa jafnvel undir? Og að ætla sér svo, voga sér, hugsið ykkur, að draga kjarasamningamál inn í þessa umræðu. Mál sem eru lögð fram sem hluti af kjarasamningum. Ég held að það hafi (Forseti hringir.) aldrei gerst, eða ég man alla vega ekki eftir því frá því að ég kom inn á þing 2009, að svo lágt hafi menn lagst að stöðva kjarasamningamál hér í þinginu.