145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Samkomulagið snerist um að málið færi inn í haustið og yrði lagt fram aftur að hausti, ekki að það yrði afgreitt í september. [Hlátur í þingsal.]

Ég kæri mig ekki um svikabrigsl. [Kliður í þingsal.] Hv. utanríkisráðherra hefur sagt að hér sé (Forseti hringir.) eingöngu um formbreytingu að ræða. Við höfum haldið því fram að um eðlisbreytingu sé að ræða þegar kemur að þróunarsamvinnu og að þarna verði grundvallarbreytingar á eðli starfsemi þróunarsamvinnu af Íslands hálfu. Ef eingöngu er um smotterísformbreytingu að ræða, eins og hæstv. ráðherra heldur fram, hvers vegna skal þetta mál þá ganga framar mikilvægum húsnæðismálum og öðrum málum sem ríkisstjórnin þarf að afgreiða fyrir jól? Vill einhver hér inni útskýra fyrir mér hvers vegna svo þung (Forseti hringir.) áhersla er lögð á þetta umdeilda mál ef eingöngu er um smotterísformbreytingu að ræða?