145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Menn tala um húsnæðismálin. Það er gríðarlega ánægjulegt að Samfylkingin skuli hafa áhuga á húsnæðismálum vegna þess að það var vægast sagt verulega stórt verkefni hjá hæstv. húsnæðismálaráðherra að ná utan um þann málaflokk þegar hún tók við þessu embætti því að Samfylkingin hafði einmitt verið með það ráðuneyti á undan og lítið búið að gerast í þeim verkefnum.

Það er þess vegna líka ánægjulegt að finna að stjórnarandstaðan gerir sér grein fyrir því að húsnæðismálin þurfa að komast áfram en það er líka mjög mikilvægt að Samfylkingin og stjórnarandstaðan svíki ekki það samkomulag sem þau hafa gert, ekki einu sinni, ekki tvisvar og ekki þrisvar.

Það er rétt, húsnæðismálin þurfa að komast til nefndar fyrir áramót og þau munu gera það, hygg ég, miðað við ummæli hv. stjórnarandstæðinga og stjórnarliða. En það þarf líka að vera svo að menn standi við það sem þeir segja og þau samkomulög sem þeir hafa áður gert. Þess vegna segi ég: Áður en við förum heim þurfum við að klára fjárlög og fjárlagatengd mál. (Forseti hringir.) Við þurfum að koma húsnæðismálunum til nefndar og við þurfum að standa (Forseti hringir.) við það samkomulag sem við höfum gert áður, hv. þingmenn, og koma þeim málum áfram sem við gerðum (Forseti hringir.) samkomulag um á síðasta þingi.