145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:20]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég bað um orðið til að lýsa því hvað ég finn til með virðingu Alþingis. Ég finn til að þurfa að sitja undir þessari óþörfu klukkustundaumræðu um mál sem þó kom fyrst á dagskrá í haust, mál sem búið er að ræða í 37 klukkustundir. Hér liggur dagskrá fyrir og af hverju göngum við ekki eins og siðað fólk til dagskrár og klárum þetta mál sem er nr. 2 á dagskránni? Við getum gengið til atkvæðagreiðslu fljótlega um það og auðvitað viljum við síðan geta tekið húsnæðismálin fyrir. Það er það sem fólkið er að bíða eftir, en sú firring sem átt hefur sér stað síðastliðna klukkutíma er það sem setur virðingu Alþingis niður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)