145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[13:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að vera jafn æstur og hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) Þó ætla ég bara að mótmæla einu. Þegar hæstv. ráðherra segir að ekki hafi verið rætt málefnalega um þetta mál er það þannig að síðasti maðurinn sem getur fellt dóm um það er hæstv. ráðherra vegna þess að hann hefur ekki viljað vera við umræðuna. Hér hefur þurft að draga hann til umræðunnar, hún tafðist um þrjá daga vegna þess að hann kaus að vera í felum í framsóknarfylgsni sínu einhvers staðar úti á landi. Það er auðvitað hans val.

Það er greinilegt að hæstv. ráðherra veit ekki hvað hann er að tala um, hann hefur ekki lesið heima. Ég nefndi hérna álitið sem lögin og lagabreytingin í vor voru byggð á, þ.e. álit nefndar sem fjármálaráðherra skipaði árið 2000 og rætt var í þinginu. Það var meðal annars um ábyrgð valdsvið og stjórnunarumboð stofnana. Í því áliti kemur fram að ráðuneytisstofnanir eru yfirleitt skilgreindar með lögum. Þær hafa jafnframt stöðu stofnana í fjárlögum og er því rétt að líta á þær sem stofnanir. Og beri menn þetta nú saman við það sem hæstv. ráðherra var að segja. Ráðuneytisstofnanir draga jafnframt nafn sitt af nánum starfslegum tengslum við ráðuneyti. Þær eru verkefnalega og stjórnunarlega aðgreindar en gegna ekki sjálfstæðum stjórnsýsluverkefnum. Veit hæstv. ráðherra ekki hvað hann er að tala um?

Í annan stað erum við löggjafinn og við ráðum því hvað fer héðan út. Það er í fyrsta lagi hægt að skipa þessum málum með þeim hætti í lögum í því frumvarpi sem hæstv. ráðherra hefur lagt hér fram og við erum að ræða, það er hægt að setja inn ákvæði þar, en menn geta líka sett inn pósitíft ákvæði í lög um ÞSSÍ um að hún skuli vera ráðuneytisstofnun af þessu tagi. Þá eru það sérlög sem ganga lengra. Þetta er „elementary, dr. Watson“. Afsakið, frú forseti.