145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að enginn skildi af hverju þessi hvellur varð. Ég tók ekki undir það þegar meiri hluti fjárlaganefndar lagði til með mjög skömmum fyrirvara aukinn niðurskurð á öll ráðuneyti og ráðuneyti utanríkismála umfram það sem hin ráðuneytin fengu á sig, eins og hv. þingmaður benti á.

Nú vill svo til að í þeim fjárlögum sem við vorum að afgreiða í gær á allt í einu að opna sendiráð í Frakklandi sem við höfðum áður lokað. Við þurfum ekki tvö. Ég veit ekki hver á að sinna því. Það kemur auðvitað í ljós. Hvers vegna þörf er á því hefur heldur ekki verið rökstutt en það er auðvitað kannski eitt af því sem manni þykir óþægilegt að hægt sé að opna sendiráð án svona einhverrar umræðu.

Ég hef áhyggjur af því að fjarað geti undan faglegheitunum. Ég er hrædd um að orðið geti meiri hreyfing á þekkingunni og mannauðnum sem við búum við nú þegar og að einhver viðskiptamál geti farið að blandast inn í þróunarmálin, að haldið verði betur utan um þau en minna hlúð að þróunarsamvinnunni sjálfri.

Það er þetta tvennt sem ég hef sérstakar áhyggjur af, fyrir utan það að þegar þetta er komið inn undir ráðuneytið höfum við sem þingmenn og almenningur minni aðgang að því. Mál og verkefni Þróunarsamvinnustofnunar eru tekin út mjög reglulega, það birtist allt opinberlega og hingað til hefur maður getað haft aðgang að því. En það gerum við ekki þegar það er komið inn í ráðuneytið. Við getum auðvitað óskað eftir því sem þingmenn að fá einhverjar upplýsingar en það er ekki (Forseti hringir.) með sambærilegum hætti og ég þekki heldur ekki dæmi þess að Ríkisendurskoðun hafi tekið út ráðuneyti í tengslum við slíkt verkefni.