145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nýta mér rétt minn til að ræða í þær 15 mínútur sem ég hef í fyrri ræðu í dag um þingmál nr. 91, hjartans mál hæstv. utanríkisráðherra og hans eina mál (Gripið fram í: Aleina.) — aleina. Þetta eina mál hæstv. utanríkisráðherra er 100% meira en mál atvinnuvegaráðherrans, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, vegna þess að þaðan hefur ekkert komið.

Það sem ég vildi segja, virðulegi forseti, í byrjun er að sú breytingartillaga sem minni hluti nefndarinnar flytur á þessu máli snýst í stuttu máli um að í staðinn fyrir að stofnunin renni inn í ráðuneytið og allt hennar hafurtask og fari þar inn í diplómasíuna og hlíti þeim reglur sem þar gilda í einu og öllu þá er tillagan millileið um að við nýtum okkur nýsamþykkt lög ríkisstjórnarinnar og leiðsögn hennar um að stofna ráðuneytisstofnun. — Ef ég hef tíma til þess á eftir langar mig að fara svolítið í gegnum umræðuna á einum af þeim fundum sem ég sat í hv. utanríkismálanefnd fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson þegar hann gegndi skyldustörfum erlendis. Ég vona að ég komist í það, en fyrst ætla ég að tala meira um þessa tillögu. — Tilgangurinn hlýtur að hafa verið sá að opna fyrir þann möguleika að ráðuneytið gæti farið þessa leið. Eins og kom fram á fundi nefndarinnar með fulltrúa úr forsætisráðuneytinu, sem ég hygg að hafi komið að samningu þeirra frumvarpa og hugmynda sem sótt eru til annarra Norðurlandaþjóða, þá var það ótvírætt að þetta væri hægt og væri skynsamleg leið. Ríkisstjórnin hefði valið að gera þetta að lögum til þess að ráðuneyti gætu gripið til þessa ráðs í endurskipulagningu stofnkerfisins ríkisins. Við verðum auðvitað að hafa í huga tillögu sparnaðarnefndar ríkisstjórnarinnar, sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, leiddu, þar sem var eiginlega boðað að leggja niður allar litlar stofnanir og steypa þeim saman í eitthvað meira og stærra. Þess vegna var þetta örugglega flutt. Mér finnst þess vegna með ólíkindum að hæstv. utanríkisráðherra taki ekki í útrétta sáttarhönd minni hlutans og fallist á að við höldum fullri sátt um Þróunarsamvinnustofnun með því að gera hana að ráðuneytisstofnun inni í ráðuneytinu og fá fullt samþykki á Alþingi fyrir þeirri leið.

Ég spyr mig að því, virðulegi forseti, hvort ástæðan tengist bara hæstv. utanríkisráðherra, vegna þess að hann vill ná sínu fram og getur ekki beygt af leið, og nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins sem styðja hann. Það gerist auðvitað oft að þingmenn ræða saman á nefndarfundum og eftir nefndarfundi til þess að reyna að finna sáttaleið í deilumálum og ég fullyrði að innan hins stjórnarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, eru sjálfstæðismenn sem segja: Við skiljum ekkert í því af hverju hæstv. utanríkisráðherra kom fram með þetta mál. Við skilum ekkert í því af hverju þarf að leggja niður stofnun sem er margverðlaunuð. Við skiljum ekkert í hvað hæstv. utanríkisráðherra er að fara með þessu máli. — En þetta er hjartans mál framsóknarmanna og eina mál þeirra og það verður að keyra í gegn hvað sem tautar og þá verða þingmenn hins flokksins ásamt óbreyttum þingmönnum Framsóknarflokksins að kyngja því veskú og samþykkja þetta arfavitlausa frumvarp.

Þetta er eitt af því, virðulegi forseti, sem er að hér á Alþingi. Fyrst og fremst er ekki rætt um málin áður en þau koma inn. Þetta mál var ekki skoðað af þverpólitískri nefnd fulltrúa allra þingflokka sem íhuguðu hvað ætti að gera og reyndu að komast að niðurstöðu um hvað skyldi leggja fram áður en málið færi til þings og sköpuðu um það sátt. Nei, það var komið inn með deilumál sem tekur langan tíma og hefur mikið verið rætt og farið í eitthvert þrátefli. Því næst hefst nefndarvinna og í nefndinni fæðast skynsamlegar og góðar tillögur, eins og minni hlutinn er með, en þá er algjör stífni og þvergirðingsháttur. Ráðherrann getur ekki beygt af leið og sagt: Ókei, við skulum fara þessa leið og skapa fulla sátt um þetta mál. Nei, það er ekki hægt. Áfram skal halda veginn hvað sem tautar og raular. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, samstarfsflokks Framsóknarflokksins, verða að gjöra svo vel og mæta í þingsal og greiða atkvæði með máli af því að Framsóknarflokkurinn og hæstv. utanríkisráðherra krefjast þess þó að þeir hafi engan áhuga á málinu og telji það jafnvel arfavitlaust, eins og sumir. Það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, og bera virðingu fyrir því, vegna þess að mér finnst það alltaf virðingarvert þegar menn segja skoðanir sínar í þingsal, að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur gert það.

Virðulegi forseti. Þetta er að mínu mati góð leið. Þetta er sáttaleið. Ég ætla enn einu sinni að skora á hæstv. utanríkisráðherra að koma til móts við okkur í þessum deilum og standa upp, fara upp á stóran hól og verða miklu stærri og meiri með því að segja: Já, við skulum fara þessa leið og halda sáttinni um þetta mál. Ég held að utanríkisráðherrann nái nánast öllu sínu fram hvað þetta varðar með því að fara þessa leið, a.m.k. er í greinargerð vitnað til ýmissa þátta hvað varðar ráðuneytisstofnun. Það er fjallað hér um hvað kom fram í greinargerðum og hvað sagt var þar og á fundum utanríkismálanefndar eins og ég sagði áðan, sem ég sat á, voru fulltrúar sem kunnu þetta mál utan að og mæltu með þessari leið í raun og veru, það væru engin tormerki á þeirri leið, enda er því pakkað saman í ágætu nefndaráliti minni hlutans sem rökstuðningi þessa máls, eins og segir, með leyfi forseta:

„Samþykkt hennar [sáttatillögunnar] gerir utanríkisráðherra kleift að ná öllum markmiðum sínum í sátt við Alþingi. Hún ætti því að vera góður grunnur að sátt.“

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en eytt seinni hluta ræðutíma míns í málsmeðferðina í nefndinni. Málsmeðferðin í nefndinni, sérstaklega á fyrri stigum, hefur staðfest það fyrir mér að hæstv. ráðherra lagði einstaklega mikla áherslu á málið. Það er reyndar nr. 91 en fór mjög fljótlega á dagskrá og var keyrt í gegnum nefndina til 2. umr. á óskiljanlegan hátt. Flaustursleg vinnubrögð eru formanni og varaformanni nefndarinnar til skammar. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur sagst ætla að beita sér fyrir nýjum vinnubrögðum í stjórnmálum á Íslandi, hún hafi svo mikinn áhuga á því. (Gripið fram í.) Þess vegna ætlaði hún að halda áfram í stjórnmálum eftir hrakfarir sem ráðherra. En það bólar ekkert á þeim nýju vinnubrögðum. Ég verð því miður að segja að vinnubrögð hv. formanns nefndarinnar eru jafnvel verri en maður hefur kynnst annars staðar hjá þeim sem hafa setið á þingi. Nýir vendir sópa ekki best hvað það varðar. Vendirnir eru reyndar hálfstrálausir.

Þá kem ég að varaformanni nefndarinnar, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, sem situr í salnum og gerði að mér skilst fundi nefndarinnar að umtalsefni hér áðan. Þó að ég hafi ekki verið nefndur á nafn tek ég það til mín vegna þess að ég var sá eini sem spurði út í þá þætti er vörðuðu starfsmenn, þ.e. um skipulag, biðlaunarétt og hvort væri verið að bjóða þeim sambærileg störf. Hún vitnaði til minnisblaðs ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar um nýjar leiðir við sameiningu stofnana, þ.e. allsherjaruppsagnir, t.d. hvað starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og starfsmenn Veiðimálastofnunar eiga að fá sem þeir skilja sjálfir ekkert í. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir gerði það að umtalsefni hér áðan. Mér er sagt og ég hef reynt að hlusta á þá ræðu, ég var að vísu ekki í þingsal, ég var í jarðarför, að þar hafi hún gert lítið úr því sem ég spurði um. Til dæmis um fjármálastjóra, er honum boðið sambærilegt starf? Um upplýsingafulltrúa, er honum boðið sambærilegt starf? Nei, auðvitað ekki vegna þess að þessu verður skellt inn í þær stofnanir sem eru í ráðuneytinu fyrir. Þar með fullyrði ég, virðulegi forseti, að biðlaunaréttur mun vakna. Það er alveg með ólíkindum að í umsögn fjármálaráðuneytis um þetta frumvarp skuli ekki vera fjallað um það. Þar eru reyndar sömu slugsvinnubrögðin og voru við sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Það var enginn tilraun gerð til að skoða það mál. Það hefur ekki enn verið gert af ráðuneytinu. Þess vegna skora ég á hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur að koma í andsvar og leyfa mér að heyra hvað hún setti út á í sambandi við þær spurningar sem ég spurði á nefndarfundi um ráðuneytisfólkið hvað þetta varðar vegna þess að svörin sem ég fékk voru þannig að mér varð verulega brugðið. Mér brá verulega vegna þess að það var ekkert búið að skoða þau mál. Það voru engin svör. Eins tók steininn úr þegar stjórar úr ráðuneytinu, sem ég ætla ekkert að nefna en eru ráðuneytisfólk, komu á fundinn og ég spurði út í stjórnskipulagið í ráðuneytinu, sem fjallað var um í einhverjum greinargerðum og umsögnum, ef ráðherra tækist að „sjanghæja“ stofnunina inn með húð og hári. Þetta var í endaðan nóvember, 30. nóvember held ég. Mér varð verulega brugðið vegna þess að í máli þeirra sem voru úr ráðuneytinu kom fram að ekkert starfsskipulag væri til um þetta. Menn hefðu jú rætt málin og skoðað þau en það hefði ekkert verið gert í því. Þá var mánuður í að þessi gjörningur átti að eiga sér stað, um áramótin. Nú er 17. desember og ég veit ekki hvort þessir 17 dagar hafi verið notaðir eitthvað í það. Mér kæmi það hins vegar ekki á óvart að gefið hefði verið í eftir þennan dag og eftir gagnrýni mína á það að menn væru virkilega ekki búnir að upphugsa það hvernig ætti að skipa starfsmönnum og Þróunarsamvinnustofnun, ef hún kæmi inn í ráðuneytið, til borðs þar innan húss. Þetta var alveg með ólíkindum. Auðvitað verður maður alltaf að fara varlega með það sem maður heyrir á fundum vegna þess að við megum ekki vitna í það. Þetta getum við sagt að sé í stórum dráttum það sem þar kom fram.

Aftur að hugsanlegum biðlaunarétti sem gæti myndast. Það er ekki búið að skoða málin hvað hann varðar. Það hefur ekkert verið rætt við starfsmenn og ekkert skoðað hvort þeir muni þiggja flutning eða hvort þeim verður boðið sambærilegt starf. Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegi forseti, að hið allt að því kolvitlausa minnisblað sem samþykkt var í ríkisstjórninni ryður ekki í burtu lögum um aðilaskipti, alls ekki. Minni ég nú á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að ríkisstjórn verði að fara varlega í að setja niður ákvæði sem eru ekki bundin við lög eða boða eitthvað sem er á skjön við lög. Ég leyfi mér að fullyrða að í tilfelli eins og hjá Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun mun vakna upp biðlaunaréttur sem hvorki fagráðuneytin né fjármálaráðuneytið hafa fjallað um. Ég gagnrýni þau vinnubrögð.

Það var líka fjallað um á fundi nefndarinnar, virðulegi forseti, hvað gerðist þegar starfsmennirnir væru komnir inn í utanríkisráðuneytið. Þá var talað um að það væri allt annar hugsunarháttur í utanríkisráðuneytinu en hjá Þróunarsamvinnustofnun þar sem er mikil breidd og mikil fagleg þekking sem nýtist Þróunarsamvinnustofnun og hefur nýst en þegar starfsmenn væru komnir inn í ráðuneytið, í raun og veru ráðnir eins og aðrir starfsmenn ráðuneytisins, þá kynni að vakna upp löngun til að taka þátt í því sem ráðuneytisfólkið kallaði að setja í gang ákveðna flutningsfléttu, að fá að taka þátt í flutningsfléttunni. Ég hváði við og spurði: Hvað er flutningsflétta? Jú, það er þegar hringrásin fer í gang, einhverjir utanríkisráðherrar eru skipaðir eins og þarf að gera í nýja sendiráðinu í Strassburg og einhverjir póstar sem talað var um að menn vildu komast inn á. Með öðrum orðum, þegar þeir sem eru með sérþekkingu í Þróunarsamvinnustofnun verða komnir inn í ráðuneytið til jafns við hina þá (Forseti hringir.) langi þá jafnvel til að fara að vinna í ráðuneytinu í Strassburg, sem dæmi. (Gripið fram í.) Þá getur þessi flutningsflétta farið í gang og menn fengið pósta og fagþekking á málum Þróunarsamvinnustofnunar (Forseti hringir.) og því öllu glatast og fer eitthvert annað og kannski verður hægt að setja einhverja aðra sem eru með aðra pósta, alls óskylda, inn í þróunarstofnun.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Mér þykir leitt að þurfa að segja það undir bjölluhljómi en ég verð samt að gera það, ég held að þetta sé eitt vitlausasta og versta frumvarp sem hefur komið fram í langan tíma á Alþingi.