145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki langa ræðu að þessu sinni. Ég reifaði málið hér fyrr í dag, fór yfir helstu efnisþætti og reyndi að skilja og skilgreina hvað veldur því að eins mikil andstaða er við málið og raun ber vitni. Ég tel þessa andstöðu sprottna af margvíslegri rót. Annars vegar eru þeir sem horfa til kerfisbreytinga sem verið er að framkvæma erlendis og starfs sem unnið er á vegum OECD um samanburð á fyrirkomulagi í ýmsum ríkjum. Þeir aðilar hafa bent á að ýmsar þjóðir horfi til Íslands sem dæmis, Ítalir telji að mörgu leyti ákjósanlegt það fyrirkomulag sem við höfum. Aðrir líta svo á að það veiki starfsemina að setja hana undir stærri regnhlíf. Ég hef tekið sem samanburðardæmi þar að þó að ýmsir kostir hafi verið við það að sameina atvinnuvegaráðuneytin hafi það að mörgu leyti veikt landbúnaðinn sem slíkan að tapa sinni stjórnsýslulegu umgjörð. Umgjörð getur nefnilega skipt máli og það er mergur málsins í málflutningi ýmissa sem hafa kvatt sér hljóðs um þetta mál að slík breyting komi til með að veikja Þróunarsamvinnustofnun að þessu leyti.

Síðan hafa ýmsar aðrar ástæður verið tíndar til og þess er að lokum að geta að jafnvel þótt menn hafi læst sig í ákveðinni niðurstöðu á báða vegu hefur ekki skort á það, stjórnarandstöðumegin, að menn hafi viljað leita lausna og sátta í þessu máli, millilendingar, setja málið í bið í fáeina mánuði og freista þess að taka það út úr hita umræðunnar þannig að menn komi örlítið kældari að borði og leiti niðurstöðu í máli sem er ekki flokkspólitískt á nokkurn hátt. Þetta er praktískt mál fyrst og fremst og á ekki að þurfa að sundra okkur flokkspólitískt eða eftir landamærum sem liggja á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Málið verður að sjálfsögðu ekki til lykta leitt fyrr en við göngum til atkvæða um það.

Ég sagði, hæstv. forseti, að ég ætlaði að tala stutt í þessari umferð og hef því lokið máli mínu.