145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Aðeins um skattstefnu þessarar ríkisstjórnar, skattbreytingar hennar hafa leitt til þess að tekjur ríkisins hafa hækkað umfram það sem ella hefði verið vegna þess að við höfum tekið skatt af slitabúum og fjármálafyrirtækjum langt umfram það sem vinstri stjórnin gerði í sinni starfstíð, svo langt að það hefur skapað svigrúm fyrir afgang af ríkisfjármálum og skattalækkanir, niðurfellingu vörugjalda, niðurfellingu tolla núna og tekjuskattslækkanir. (Gripið fram í: Ekki …) Það hefur skapað svigrúm fyrir allt þetta. (SII: … lífeyrisþega.) Svo er grundvallaratriðið sem við skulum halda áfram að ræða hér, það að kakan er að stækka sem skilar auknum tekjum til ríkisins. Þess vegna skapast yfir tíma svigrúm til að létta byrðum af heimilunum og fara í skuldaaðgerðir fyrir heimilin, greiða niður verðtryggðar húsnæðisskuldir. Endilega höldum áfram umræðu um skattstefnu og skattapólitík en ég frábið mér þá sleggjudóma sem ríkisstjórnin fær hér og segi bara: Þeir sem þurfa að æsa sig yfir þessu eru þá væntanlega að tala fyrir einhverju sem heitir öfgavinstridólgahugmyndafræði. [Lófatak í þingsal.]