145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:22]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna. Það eru tvö atriði í henni sem ég vil minnast á, í fyrsta lagi kjör aldraðra og öryrkja og í öðru lagi meint sendiráð sem á að opna í Strassborg í Frakklandi.

Við skulum byrja á öldruðum og öryrkjum í fyrra andsvari mínu. Það hefur margsinnis komið hér fram að það sem við erum að leggja til og ég hef mörgum sinnum lagt til úr þessu púlti er að laun aldraðra og öryrkja hækki í 300 þús. kr. á um það bil einu og hálfu ári héðan í frá. Það er sú raunverulega kjarabót sem aldraðir þurfa að fá.

Það er rangt að segja að síðasta ríkisstjórn hafi staðið vörð um aldraða og öryrkja. Eitt hennar fyrsta verk var að skerða ákveðna hópa aldraðra og öryrkja. Það liggur alveg fyrir. Þá segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Við urðum að skera niður alls staðar. Hver var forgangsröðin hjá fyrrverandi ríkisstjórn? Hún setti peninga í ESB-umsókn, það var allt í lagi. Af hverju setti hún ekki upp forgangsröð og lét aldraða og öryrkja vera síðasta? Nei, hún gerði það ekki, 1. júlí 2009 skar hún niður til þessara hópa. Það var eitt hennar fyrsta verk, ekki síðasta. Við skulum hafa það algjörlega á hreinu.

Það að halda því fram að aldraðir fái ekki neitt afturvirkt er náttúrlega bara leikaraskapur. Þeir fá 9,7% núna um áramótin og fengu 3% um síðustu áramót. Hluti af þessari hækkun núna um áramótin er í raun afturvirk hækkun. Það liggur alveg fyrir. Þeir fá hækkun.

Svona fullyrðingar, bæði um verk síðustu ríkisstjórnar og það sem núverandi ríkisstjórn er að gera, er alrangt og fyrir neðan allar hellur.