145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð. Það er auðvitað búið að taka umræðu um þetta þingmál, þetta er þriðja þingið sem fjallar um frumvarpið og það er að ganga núna í gegn við atkvæðagreiðslu á morgun. Eins og komið hefur fram í fyrri ræðu um málið þá hófst vinna við frumvarp um opinber fjármál í nóvember 2011 þegar sá hæstv. forseti sem sat á ræðustólnum rétt áðan, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þegar hann var fjármálaráðherra og skipaði vinnuhópa til að fara af stað með þessa vinnu. Vinnan hélt áfram og alveg þar til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson lagði fram frumvarpið fyrir tveimur þingum síðan.

Þess vegna má segja að það ætti að vera góður þverpólitískur grunnur undir frumvarpið enda er það afar mikilvægt vegna þess að þarna er verið að tala um breytt vinnubrögð. Við erum að setja okkur í þinginu og framkvæmdarvaldinu vinnureglur og til að það gangi eftir er nauðsynlegt að um það sé þverpólitísk samstaða. Við erum að tala um að taka stefnumörkunarumræðu fram á vorþing þar sem stefna í helstu málaflokkum er lögð fram til lengri tíma og síðan áætlun fyrir árið fram undan. Með þingsályktunartillögu verða helstu tölur samþykktar á vori sem verða lagðar sem grunnur undir fjárlagafrumvarp sem birtist síðan að hausti. Ég held að með þessu sé verið að færa vald til þingsins. Við fáum meira um stefnuna að segja og þá um leið verði það liðin tíð að hægt sé að setja stefnumál í stórum málaflokkum fram í einni málsgrein í fjárlagafrumvarpi eins og hefur verið gert núna undanfarið. Þess í stað tökum við umræðuna og það eykur lýðræðið og völd Alþingis að mínu áliti.

Þegar verið var að vinna að frumvarpi um opinber fjármál lögðu ráðherrarnir sem að þessu komu sem eru fjórir mikla áherslu á samráð, auðvitað samráð við sveitarfélögin þar sem fjármál bæði ríkis og sveitarfélaga eru undir í frumvarpinu og síðan var fjárlaganefnd reglulega upplýst um vinnuna sem fór fram og stórir fundir sveitarstjórnarmanna voru líka undir. Það er aðeins ein grein sem fór ekki í allt þetta samráðsferli og það er sú grein sem Samfylkingin greiddi atkvæði gegn og er ekki þverpólitísk samstaða um, því miður. Það er því afar líklegt að þeirri grein verði breytt fljótlega og þá verður það bara gert. En ég vona að hin atriðin sem samstaða er um muni standa og halda sér vegna þess að þarna er um mikið umbótastarf að ræða. Það mun örugglega taka á við að koma þessu vinnulagi á og það þarf að brjóta upp hefðir o.s.frv., en vonandi höfum við úthald til að koma þessum umbótum á.

7. gr. sem Samfylkingin greiddi atkvæði gegn fjallar um fjármálareglur og þar segir í fyrsta lagi: „Að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu.“

Í öðru lagi: „Að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en nemur 30% af vergri landsframleiðslu.“

Í þriðja lagi: „Ef skuldahlutfall samkvæmt 2. tölulið er hærra en 30% skal sá hluti sem umfram er lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% (1/20) á hverju ári.“

Menn deila um þetta og segja sem svo: Í árferði þegar allt er í góðu lagi er ekkert mál að vera með svona reglu og sjálfsagt en síðan koma sveiflur og við búum við mjög sveiflukennt hagkerfi og þá geta svona reglur mögulega skaðað almenning og veita ríkissjóði ekki nægilegt svigrúm til að takast á við sveiflur með tímabundnum hallarekstri og jafnvel vandamál sem koma fram í viljaleysi til að vinna að hallalausum ríkissjóði við slíkar aðstæður. Hér sem betur fer á Íslandi hefur verið almenn samstaða um það, alveg frá árinu 1990, að reyna að vera með hallalausan ríkissjóð. Við urðum fyrir stórkostlegu áfalli haustið 2008 en það tókst að loka fjárlagagatinu aðeins á fjórum árum og þá byrjuðum við að skila aftur hallalausum ríkissjóði. Það er auðvitað afar mikilvægt en það má þó vera að aðstæður komi upp þannig að hægt sé að nota hallann til að taka sveifluna. Ef við viljum halda sköttum tiltölulega stöðugum og útgjöldum ríkissjóðs tiltölulega stöðugum og þjónustu ríkisins þá getur verið kostur að hallinn fái aðeins að sveiflast þannig að í ákveðnum aðstæðum getur svona regla verið skaðleg.

Samfylkingin lagði áherslu á breytingu á 10. gr. sem grípur ef stórkostleg áföll dynja yfir og útséð er með að stefna ríkisstjórnarinnar í fjármálum muni ekki geta gengið eftir. Samþykkt var breyting á þeirri grein þannig að við ákveðnar aðstæður er hægt að taka regluna úr sambandi í þrjú ár og hefja síðan að nýju áætlunargerð til fimm ára.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég fagna því að frumvarpið er komið hingað og á þennan stað og hlakka til að vinna eftir því. Ég er auðvitað svolítið óánægð og vonsvikin yfir því að við skyldum ekki ná þverpólitískri samstöðu um allar greinar en það er aðallega ein grein sem veldur einhverjum ágreiningi af öllum þessum rúmlega 60 greinum þannig að það er kannski vel af sér vikið.