145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef engan sérstakan áhuga á að lengja þessa umræðu mikið en mér er þó skylt að koma hingað upp til að leiðrétta mikinn misskilning að ég held í máli hv. þingmanns sem hér ræddi málið hvað varðar rúmmálsregluna, en það virðist vera skilningur hv. þingmanns að hér hafi orðið mikil mistök.

Í frumvarpinu var verið að leggja til að afnema rúmmálsreglu tekjuskattslaga við ákvörðun á því hvort söluhagnaður af íbúðarhúsnæði til eigin nota teldist til skattskyldra tekna. Sem sagt, þeir sem búa í húsnæði sem er jafnvel hugsanlega mjög stórt lenda ekki í neinum söluhagnaði af því. Það er það sem var að gerast, það var ákvæði til rýmkunar. Vissulega vildi hv. þingmaður ganga enn lengra og að söluhagnaður manna af húsnæði í þeirra eigu yrði skattfrjáls, sama hvað þeir ættu mikið húsnæði. Sem sagt, þótt þeir ættu 10 þús. fermetra af húsnæði í leigu úti um allan bæ sem síðan hækkaði í verði, þá ætti söluhagnaðurinn að vera skattfrjáls.

Nú kem ég að spurningum til hv. þingmanns. Nú eru fyrirtæki og fasteignafélög sem eru skattskyld af öllum söluhagnaði sem reka útleigufélög sem leigja t.d. íbúðarhúsnæði til einstaklinga. Hvernig mundu þau bregðast við ef þau væru skattskyld af sínum söluhagnaði, sem þau mundu vissulega geta frestað með ýmsum hætti en eru í grunninn skattskyld af söluhagnaði, ef einstaklingar yrðu algerlega skattfrjálsir af söluhagnaði af sömu starfsemi? Eru einhver fordæmi fyrir því frá öðrum löndum að söluhagnaður eigna í ótakmörkuðum mæli eins og hér var áhugamál þingmannsins sé skattfrjáls, söluhagnaður sé skattfrjáls takmarkalaust?