145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[21:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á núgildandi bráðabirgðaákvæði III í lögum um Seðlabanka Íslands sem taldar eru mikilvægar til að ná að skýra betur hvernig staðið skuli að móttöku og frekari úrvinnslu stöðugleikaframlags. Lagt er til að núgildandi ákvæði verði skipt upp í nokkrar málsgreinar til að skapa skarpari skil á milli þátta í því ferli sem fjallað er um í ákvæðinu, þ.e. frá því að Seðlabankinn tekur á móti verðmætunum og þar til þeim er endanlega ráðstafað í samræmi við lög um stöðugleikaskatt.

Ákvæðið sem verður 2. mgr. er í meginatriðum samhljóða 3. málslið bráðabirgðaákvæðis III í núgildandi lögum. Hér er þó lagt til að sérstaklega verði áréttað að Bankasýsla ríkisins annist meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sbr. lög 88/2009, um Bankasýslu ríkisins. Þá er áfram gert ráð fyrir að laust fé verði varðveitt á sérstökum reikningum ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands en önnur verðmæti verði til varðveislu hjá bankanum eða félagi sem lagt er til að verði stofnað.

Í ákvæðinu sem verður 3. mgr. er lagt til að Seðlabanki Íslands skuli stofna sérstakt félag til þess að annast umsýslu og að fullnusta og selja eftir því sem við á verðmæti sem ekki eru laust fé eða eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum. Ekki er gert ráð fyrir að eignirnar verði eign félagsins heldur er gert ráð fyrir að tilgangur félagsins verði að vinna úr þeim og umbreyta þeim í laust fé. Sem sagt, varðandi eignarhaldið er skýrt að það verður hjá ríkissjóði.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að félaginu verði með ákvæðinu veitt lagaheimild til að annast umsýslu, að fullnusta og selja eignirnar án þess að leitað verði sérstakrar lagaheimildar í fjárlögum hverju sinni.

Mælt er fyrir um að stjórn félagsins búi yfir víðtækri þekkingu og reynslu til að sinna þessu verkefni og að hún verði skipuð af Seðlabankanum. Þótt félagið verði í eigu bankans er ekki gert ráð fyrir að Seðlabankinn né sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins komi að einstökum ákvörðunum félagsins við umsýslu eignanna. Með því að fela þar til bærum sérfræðingum úrvinnslu og ráðstöfun þessara eigna á góðan og faglegan hátt, með lögum, er leitast við að meðferð og ráðstöfun þessara verðmæta verði hafin yfir vafa. Við umsýslu, fullnustu og sölu eigna skal félagið leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar.

Gert er ráð fyrir að ráðherra og félagið geri með sér sérstakan samning þar sem nánar verður kveðið á um störf félagsins og þau atriði sem helst skipta máli við umsýslu og ráðstöfun þessara eigna. Þar sem ekki er gert ráð fyrir því að Seðlabankinn né ráðherra hafi afskipti, eins og áður segir, af verkefnum félagsins er lagt til að Ríkisendurskoðun skuli hafa eftirlit með starfsemi félagsins og framkvæmd samnings milli ríkisins og félagsins.

Ég vil láta þess getið, í tengslum við þann samning sem hér var vísað til, þ.e. samning sem ætlunin er að ráðherra geri við félagið, að ég hef í hyggju að kynna drög að þeim samningi hér undir þinglegri meðferð málsins.

Í ákvæðinu sem verður 4. mgr. er kveðið á um ráðstöfun ríkisins á verðmætum sem móttekin eru á grundvelli 2. málsliðar 1. mgr. Í 4. málslið gildandi laga er mælt fyrir um að meðferð og ráðstöfun verðmætanna skuli hagað í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um stöðugleikaskatt. Hér er lagt til að ákvæðið sem vísað er til í lögum um stöðugleikaskatt verði einnig tekið upp í bráðabirgðaákvæðið til skýringarauka. Þar er hins vegar fjallað um ráðstafanir sem eru annars eðlis en þær ráðstafanir sem félaginu er falið að annast og lúta að því að vinna úr eignunum, heimta inn fjármuni og koma eignum í verð. Þær ráðstafanir sem fjallað er um í ákvæðinu eru ráðstafanir sem aðallega felast í því hvernig ríkið ráðstafar að lokum andvirði eignanna út í þjóðfélagið. Slík ráðstöfun skal fara fram á grundvelli heimilda í fjárlögum að undangengnu samráði við Seðlabanka Íslands um mat á áhrifum þessa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og kynningu málsins fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps.

Að öðru leyti er vísað til athugasemdar við 2. mgr. 1. gr. frumvarps sem varðar lög nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.