145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[22:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir vill hafa það algerlega á tæru hvernig samráði við þingið á að vera háttað samkvæmt þessu frumvarpi. En eins og ég skil frumvarpið er ekki ætlast til að neitt samráð sé við þingið. Talað er um að kynna efnahags- og viðskiptanefnd með hvaða hætti eigi að fara með ráðstöfun andvirðisins þegar búið er að innleysa eignirnar. Enginn hefur samkvæmt frumvarpinu í reynd nokkurn möguleika til að setja hnefann í borðið, hvorki Seðlabankinn né efnahags- og viðskiptanefnd. Seðlabankinn á að vísu að hafa samráðsrétt og auðvitað má segja að í því felist mikill þrýstingur vegna þess að ef Seðlabankinn kæmist að þeirri niðurstöðu að ráðstöfun andvirðis innleystra eigna væri líkleg til að auka þenslu mundi það auðvitað draga mjög úr trúverðugleika viðkomandi fjárlagafrumvarps.

Hins vegar vil ég segja líka að ég sætti mig vel við þá leið sem hér er lögð til. Ég held að í ljósi reynslunnar af aðkomu Seðlabankans og tilvist eignarhaldsfélagsins líka sé Seðlabankinn ágætlega hæfur til að hafa með höndum þetta félag. En ég velti hins vegar fyrir mér út frá fyrri parti máls míns hér og með tilliti til þess að hæstv. ráðherra segist gera ráð fyrir að innleysing eignanna gangi tiltölulega hratt fyrir sig, hvort ekki sé rétt að minnsta kosti að íhuga það að ráðherrum eða framkvæmdarvaldinu verði gert skylt að skýra þinginu reglulega frá með hvaða hætti framvindan á innlausn eignanna hefur orðið, t.d. með skýrslu til Alþingis (Forseti hringir.) sem þá efnahags- og viðskiptanefnd eftir atvikum gæti óskað eftir að ráðherrann gerði grein fyrir munnlega hér í þinginu.